<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, mars 31, 2003

Afmæli

Solla varð sex mánaða á laugardaginn og af því tilefni setti hún inn nýjar myndir á síðuna sína og sagði nokkur orð um daginn. Elsku Solla, til hamingju með daginn.

Maren systir á afmæli í dag og er orðin 21 árs stelpan. Hún ætlar að bjóða okkur í mat í kvöld af tilefni dagsins. Svona er hún orðin myndarleg. Við hér á Eggertsgötunni óskum henni til hamingju og hlökkum til kvöldsins.

Almannatengsl

Það má segja að ég hafi fallið á eigin bragði á föstudaginn. Ég fór í ríkið og keypti Faxe bjór en á fimmtudaginn hafði verið sagt í Fréttablaðinu að hann væri ódýrasti bjórinn. Svo keypti ég bæði rauðvínin sem var fjallað um í Íslandi í bítið um morguninn. Segið þið svo að gott PR skili ekki árangri.

laugardagur, mars 29, 2003

Barnablogg

Einar og Bryndís eru farin að blogga um börnin sín. Mæli með því að þið kíkið á síðuna. Það verður gaman fyrir Emblu og Birgir Inga að lesa þetta eftir nokkur ár. Ég hvet þau reyndar til að setja upp möguleika á athugasemdum.

föstudagur, mars 28, 2003

Letiblogg

Svo er maður að kalla Binna letibloggara! Nei nú verður gerð bragabót á!

Teletubbies
Við fórum með Sollu í sex mánaða skoðun í morgun og hún fór í gegnum eftirlitið með stæl. Hún er orðin 8,6 kíló og 71 cm. Hjúkkan sprautaði hana gegn heilahimnubólgu og Solla var ekki sæl með það. Ég fann svo til með henni að ég keypti stubbaspólu handa henni. Það er sex mánaða afmælisgjöfin. Nú situr barnið agndofa yfir stubbunum. Það gerist nú ekki mikið í þessum þáttum.

Áfram Ísland
Ég er að spá í hvort ég eigi að segja eitthvað um landsfund Sjálfstæðisflokksins. Nenni því eignlega ekki. Davíð segist hafa tekið afstöðu með írösku þjóðinni en á móti Saddam. Ég er ekki viss um írakar líti þannig á málið. En það er gott að Davíð hafi vit fyrir þeim. Það er spurning hvort Bush og Davíð ætli ganga í það mál í eitt skipti fyrir allt að hreinsa burt alla einræðisherra heimsins? Spurning hvort þeir steypi ekki kóngunum í Kúwæt og Saudi Arabíu fyrst þeir eru komnir á staðinn.
En hvað finnst ykkur um slagorð fundarins Áfram Ísland? Æi ég veit það ekki. Hálf hallærislegt eitthvað.

Pasta eða kjúklingur?
Þyrí er á einhverju lögfræðidjammi. Ég skutlaði henni og
Obbu
í eitthvað partý klukkan hálf fjögur. Ég spái því að þær verði sauðdrukknar um kvölmatar leitið og komnar heim fyrir níu. Samt ekki eins slappar og Marý mágkona mín síðustu helgi.
Annars eru Möddi og Arnar að koma í mat kvöld. Ætlum svo að horfa á Gettu betur og kannski grípa í spil. Hver veit nema að nokkrir bjórar slæðist í belginn. Er ekki viss hvort ég ætli að gefa þeim pasta eða kjúkling. Ef ég get ekki ákveðið mig þá fá þeir pasta með kjúkling.


þriðjudagur, mars 25, 2003

Nýjar myndir

Nú eru loksins komnar nýjar myndir af Sollu. Njótið vel!

Many Willing, But Few Are Able

Bendi á ágæta grein í Washington Post þar sem haft er eftir Helga Ágústssyni sendiherra að Íslendingar hafi lagt niður vopn á 14. öld. Ætli ríkistjórnin viti af því?

Þrítugsafmæli

Ég er enn hér eftir góða helgi. Við fórum í afmæli til Marðar á laugardaginn. Hann varð þrítugur kallinn og hélt vinum sínum og ættingjum glæsilega veislu. Því miður var Erna ekki með okkur en hún fær afmælið á spólu von bráðar. Til hamingju með afmælið Mörður og takk fyrir okkur.

fimmtudagur, mars 20, 2003

Ég fagna andstöðu Dagnýjar gegn stríðinu og gott að vita að hún er ekki komin upp fyrir haus í mykjunni í framsóknarfjósinu. Hún lætur það nú samt alveg vera að skamma formanninn.

...herinn burt?

Þá er þetta bansetta stríð hafið og Ísland tekur þátt eftir ákvörðun sem virðist hafa verið tekin í tveggja manna tali. Það er alveg ótrúlegt að þessi ákvörðun hafi verið tekin án nokkurrar umræðu á Alþingi né annars staðar í samfélaginu. Minnugur orða forsætisráðherra sem voru eitthvað á þá leið að múslímsk ríki væru ólýðræðisleg kemur þetta spánskt fyrir sjónir. Tyrkneska þingið er búið að ræða það í allan dag hvort nota megi lofthelgi landsins í stríðinu. Hér þarf ekki ræða afnot af lofthelgi, flugvelli og þátttöku í að hreinsa skítinn eftir Bandaríkjamenn í Írak. Til að toppa allt saman er Íslensku þjóðinni er tilkynnt um þátttöku hennar í stríðinu af bandaríska utanríkisráðuneytinu. Talandi um stjórnmálamenn sem eru blindaðir af valdhroka og úr tengslum við kjósendur.

Ég hef verið fylgjandi veru varnaliðsins á Miðnesheiði en ef hún kostar okkur sjálfstæði í utanríkismálum verð ég endurskoða afstöðu mína. Enda virðist vera varnaliðsins snúast um atvinnu á Suðurnesjum ekki varnir Íslands. Ég ítreka það að Ísland á ekkert erindi í öryggisráð SÞ fyrr en við getum rekið sjálfstæða utanríkisstefnu.

þriðjudagur, mars 18, 2003

Bush að fara í stríð

Þar höfum við það! Saddam og kónar hans fá 48 stundir til að yfirgefa Írak annars láta stríðsherrarnir í Washington til skara skríða gegn þeim. Þetta kom reyndar ekki á óvart. Þessi ríkistjórn er búin að stefna að þessu leynt og ljóst í að verða ár. Það sem kemur mér meira á óvart er hvað Blair virðist vera tilbúinn að ganga langt sem taglhnýtingur Bandaríkjanna. Ef heldur sem horfir verður honum sparkað af eigin þingmönnum eins og var tilfellið með Thatcher á sínum tíma. Of margir stjórnmálamenn sem hafa setið lengi og oft með miklum stuðningi og vinsældum hafa blindast af valdahroka og misst tengsl við kjósendur. Jafnvel samflokksmönnum þeirra er ofboðið.

Að lokum vil ég benda á ágætan pistil Andy Rooney sem Erna vitnar til í commenti hér fyrir neðan. Gefum Rooney orðið„... George W. Bush was listed 12th with the lowest IQ...the dumbest President.“

Bíð eftir Bush

Ég er bíða eftir ræðu Bush. Ætli hún komi nokkuð á óvart. Hann ætlar inn í Írak og setur Saddam einhverja úrslitakosti. Hlustaði á utanríkisráðherra í Íslandi í dag. Hann sagði nokkrum sinnum að stefna Íslands væri alveg skýr í þessu máli án þess að ég væri nokkru nær um hver hún er. Ég held að hún sé sú að fylgja könum að málum án þess að segja íslenskum kjósendum frá því. Ég veit ekki hvað Ísland er að sækjast eftir sæti í öryggisráðinu ef það á að elta Bandaríkin í öllum málum.

Hjörtur hefur hætt við ótímabært andlát sitt á netinu og svo við höfum eitthvað til að gleðjast yfir.

sunnudagur, mars 16, 2003

Haukur og Kolla komu í mat í kvöld, Fengu heimagert pasta með þvingunni. Fórum svo í frábært afmælispartý hjá Guðrúni Ögmunds. Gáfum henni í afmælisgjöf Skýjabólstra eftir Þyrí Höllu Steingrímsdóttir.

föstudagur, mars 14, 2003

Þyrí fór í vísindaferð í kvöld að mér skilst á lögfræðistofu Guðna frænda síns og ætlaði svo á eitthvað með félögum sínum í lögfræðinni fram á nótt. Við Solla vorum tvö heima í kvöld og búið að vera gaman hjá okkur. En nú er Solla búin að drekka pelann sinn og sofnuð. Ég sit hérna og horfi á Gunnar Þórðarson í Af Fingrum Fram Gunnar er flottur!

Um pela

Pelar eru nauðsynleg tæki og sérstaklega fyrir okkur feður í feðraorlofi. Pelagjöfin fór nú reyndar ekki vel af stað hjá okkur Sólveigu, hún vildi einfaldlega ekki pela. Hún var reyndar aldrei neitt sérstaklega hrifin af svona gúmmídrasli og vildi t.d. ekki snuð fyrr en nýverið þegar að hún fór að taka tennur. Þá nagar hún snuðið. Ég geri ráð fyrir að þarna úti séu feður sem eru í vandræðum með pelagjöf eða karlmenn sem eiga eftir að lenda í vandræðum með pelagjöf ætla því að gefa nokkur góð ráð.

Galdurinn við að venja barn á pela er fyrst og fremst þolinmæði og aldrei að gefast upp. Ég mæli líka með því að þið prófið nokkrar tegundir af pelum. Eftir að við Solla prófuðum nokkrar tegundir þá var NUK peli það sem við gátum bæði sætt okkur við. Fyrstu skiptin sem gefinn er peli er best að barnið sé mjög svangt t.d. þegar að það vaknar eftir langan nætursvefn. En algert lykilatriði er að mamma sé hvergi nálæg. Ef barnið sér mömmu þá veit það að það gæti verið e-ð betra í boði. Svo er það mín reynsla að mömmurnar eru ósköp fljótar að gefast upp.

Nú erum við Solla búin að ná mjög góðum tökum á þessu þá mælum við með Avent pelum. Þeir eru mjög þægilegir og besta við þá að hægt er að stilla flæðið í túttunni. Það er málið!

Í lokin vil ég kvarta yfir því að SMA GOLD þurrmjólk virðist vera uppseld í landinu. Mér skilst að heildasalan Austurbakki eigi að taka það til sín.

fimmtudagur, mars 13, 2003

Ég mæli með því að þið lesið svör Reynis Traustasonar blaðamanns á Fréttablaðinu við gagnrýni sem hefur dunið á honum og blaðinu undanfarið.

miðvikudagur, mars 12, 2003

Einn af þessum dögun.

Ég er afskaplega hugmyndasnauður í dag og hef lítið um að skrifa. Get þó sagt ykkur frá því að Kristján og Mads fóru til Árósa í morgun. Þeir ætluðu að fara á mánudaginn en þar sem skíðafærið var svo gott(alla vega betra en í Danmörku) ákváðu þeir að fresta för sinni um tvo daga. Þetta gátu þeir gert fyrir litlar 1500 kr. Áfram Iceland Express.

Sólveig sefur úti vagni og ég nenni ekki að vaska upp eða sinna öðrum húsverkum. Dettur ekkert sniðugt í hug til að blogga um. Þetta er nú ljóta ástandið. Þannig að ef þið eruð Framsóknarmenn og þá mæli ég frekar með því að þið kíkið við hjá Dagný og lesið allt um ágæti íslensku ullarinnar. Það ætti að gleðja öll sönn framsóknarhjörtu.

þriðjudagur, mars 11, 2003

Dagurinn hjá okkur Sollu II

Sólveig vaknaði rúmlega þrjú og þá fékk hún graut að borða. Þetta er mjölgrautur sem er frekar braglaus og óspennandi. Undafarið hef ég blandað annað hvort peru- eða bananamauki út í til að fá smá bragð. Sólveig lætur sér þetta vel líka og borðar með bestu list. Úlfar og Kolfinna kíktu í kaffi seinnipartinn. Sólveigu fannst það mjög gaman enda er ekki oft sem hún hittir önnur börn. Ég held að Sollu finnist hið besta mál að fá svona heimsóknir því hún er örugglega stundum hundleið á hanga með pabba sínum allan daginn.

Þyrí kom og borðaði með okkur kvöldmat en fór aftur að lesa því hún var í prófi í dag. Kvöldið leið nú nokkuð tíðindalaust hjá okkur feðginunum, við horfðum á Fraiser og Sólveig var sofnuð fyrir tíu.

mánudagur, mars 10, 2003

Dagurinn hjá okkur Sollu

Þar sem ég tileinkaði þetta blogg feðraorlofinu þá er nú rétt að ég segi lesendum aðeins frá því hvernig dagurinn gengur fyrir sig hjá okkur Sollu. Hún vaknaði um áttaleytið í morgun en ég var svo heppinn að Þyrí vaknaði með henni og gaf henni að drekka. Sólveig sofnaði svo fljótlega aftur og svaf í klukkutíma. Við feðginin vorum hálflöt svo við lágum rúminu til 10 og þá drifum við okkur á lappir.

Sólveig skoðaði íbúðina í göngugrindinni á meðan pabbi fékk sér kaffi og las Fréttablaðið. Þessi göngugrind er alger snilld því hún getur farið nokkuð frjáls um íbúðina án þess að fara sér að voða. Ég verð reyndar að hafa nokkuð gott eftirlit með henni því þetta frelsi gerir henni kleift að ná í ýmislegt. Í morgun náði Sólveig í tóma kókómjólkurfernu sem var þó ekki meira tóm en svo að fötin hennar voru öll í kókómjólk. Hún varð auðvitað öskureið við pabba sinn þegar að ég tók fernuna af henni. Hún var reyndar fljót að gleyma því og snéri sér að Fréttablaðinu. Það fékk svipaða meðferð hjá henni eins og maður ímyndar sér að blaðið fái hjá væni sjúkum Sjálfstæðismönnum þessa dagana.

Eftir þessar aðgerðir var litla Solla bæði þreytt og svöng svo hún drakk pela hjá mér og við fórum í smá göngutúr í vagninum. Nú sefur hún út á svölum og ég geri ráð fyrir því að sofi í tvo tíma. Á meðan get bloggað en þarf nú að fara að sinna heimilstörfum. Uppvaskið bíður.

Helgin

Helgi var skemmtileg enda gefst ekki oft tækifæri til að eyða helgi með Kristjáni bróður. Ég talaði um það á fimmtudaginn að Kristján ætlaði að mæta á svæðið með þvinguna af pastavélinni. En eins og einhverja hefur grunað þá var hún ekki aðalástæðan fyrir komu hans til landsins. Ástæðan var sú að hann og félagar hans á Panicdesignlab tóku þátt í samkeppni um hönnun á sendiherrabústaðnum í Berlín og þeir gerði sér lítið fyrir og fengu viðurkenningu fyrir tillöguna. Til hamingju með það strákar!

Kristján og Mads félagi hans mættu á svæðið og tóku við viðurkenningunni í boði í utanríkisráðuneytinu á föstudaginn. Ég bauð þeim svo í mat og gaf þeim danskar kjúklingabringur. Ég ætlaði að sjálfsögðu að gefa þeim íslenskar en það voru bara til danskar í 10-11. Þetta voru reyndar eðal bringur og kílóið kostaði einungis 1000 kall. Mamma gaf þeim svo íslenskt lambalæri á laugardaginn.

Ég vil nota tækifærið og fagna tilkomu Iceland Express því án þess félags hefðu þeir ekki haft tök á því að koma. Ég er nokkuð viss um að Flugleiðir hefði ekki haft neitt annað en Saga class fyrir þá með svona skömmum fyrirvara.



föstudagur, mars 07, 2003

Dagný býður mig velkominn í bloggheiminn og minnir um leið á að Framsóknarflokkurinn átti stærstan þátt í að koma á feðraorlofi. Fyrir það kann ég honum bestu þakkir og hef þessa síðu sem er tileinkuð feðraorlofi mínu í fallegum framsóknarlit. Lengra er ég ekki tilbúinn að ganga í stuðningi við Framsóknarflokkinn.

Í feðraorlofi

Nú er ég alveg dottinn í bloggið. Ég hef oft velt því fyrir mér hvaða hvatir fær fólk til að setjast niður og deila með umheiminum hvað það er stússa og hugsa frá degi til dags. En svo hef ég staðið mig að því að hafa mjög gaman að því að lesa blogg vina og kunningja og sérstaklega þeirra sem maður er ekki í daglegu sambandi við. Tala nú ekki um fjölmarga félaga sem búa í útlöndum. Ég vil því sérstaklega hvetja þá sem ég þekki og búa í útlöndum og hafa ekki komið sér upp bloggi að gera það hið snarasta (Kristján, Birna og Einar taki þetta sérstaklega til sín).

Ég ætla reyndar ekki að halda því fram að ástæðan fyrir þessari síðu sé fórnfýsi mín fyrir vini mína sem hafa ekki tök á því að vera í reglulegu sambandi. Ástæðan er aðallega sú að ég er í feðraorlofi og hef því meiri tíma en oft áður. Um feðraorlof er það eitt að segja að það er snilld! Án þess að ætla detta í einhverja væmni þá er ég búinn að eiga yndislegan tíma með dóttir minni sem ég hefði ekki viljað fara á mis við.

Á þessari síðu ætla ég að gefa ykkur innsýn í það hvernig er að vera í feðraorlofi og heimavinnandi húsfaðir í Vesturbænum. Lesendur munu líka þurfa að þola ýmsa hugrenninga og vangaveltur sem ég hefði annars fengið útrás fyrir á vinnufélögunum.

fimmtudagur, mars 06, 2003

Máttur netsins

Svona er áhrifamáttur netsins mikill. Ég rukkaði Kristján um þvinguna fyrir pastavélina áðan og hann var að hringja og segja mér að hann ætlar að koma með hana frá Árósum á morgun. Þetta kalla ég þjónustu!

Íslenska vatnið ekki best!

Það er ekki einu sinni næst best, heldur í 19. sæti samkvæmt frétt á mbl.is í dag. Svo les maður það hjá Ernu í New York og Marý í Norwich að það sé hægt að fá skyr annars staðar í heiminum. Er sú míta sem maður er alinn upp við að allt sé einstakt og best á Íslandi röng? Nema að þetta sé eitt allsherjar samsæri vondra manna í útlöndum geng Íslandi.

Flottar síður

Kristján bróðir er ansi lúnkinn við að hanna flottar vefsíður þó hann sé ekki búinn að hanna eina slíka síðu fyrir mig. Mæli með því að þið kíkið á heimasíðu Panicdessignlab sem er fyrirtæki sem hann rekur með nokkrum félögum sínu. Svo er hann að búa til síðu fyrir deildina sína arktektaskólanum. Þar má lesa allt um Japansferðina sem þau fara í apríl. Svo vil ég minna hann á þvinguna fyrir pastavélina.

Kínverskir veitingarstaðir í Bretlandi

Ég vona að Binni hafi tekið upp það sem fór á milli hans og Maju á kínverska veitingarstaðnum. Blaður á kínverskum veitingarstöðum í Bretlandi hefur komið illa í bakið á mönnum eins og dæmin sanna.

miðvikudagur, mars 05, 2003

Öskudagur

Íslensk börn hafa greinalega tekið upp þann ameríska sið að ganga í hús og biðja um nammi á öskudaginn. Ætli ég fyrirgefi þeim það ekki þó að ég sé frekar á móti því að taka upp amerískar hefðir. En alla vega kom fyrsta bankið í morgun kl. 8.30 (eiga þessi börn ekki foreldra?) og svo með reglulegu millibili. En þar sem öskudagurinn kom algerlega aftan að mér varð ég að segja börnunum sem var að ég ætti ekkert nammi. Því miður. Þegar að ég fór í Bónus áðan þá keypti ég tvo stóra nammmipoka til að gefa blessuðum börnunum en það hefur bara enginn komið síðan. Týpískt!

Ég fór í Bónus áðan og gerði góð kaup. Þar var stappað af fólki svo landinn lætur hamagang undanfarna daga ekki á sig fá. Gaman að því!

Meira um Davíð og Baug

Stjórnmálamenn hafa skiljanlega lítið vilja tjá sig um mál forsætisráðherra og Baugs. Varaformaður Framsóknaflokksins og formaður Vinstri grænna gátu samt ekki setið á sér og blönduðu og Samfylkingunni í málið með því að segja að það hafi byrjað með Borganesræðunni svokölluðu. Málið byrjaði auðvitað í London ári fyrr og kemur í raun umtalaðri ræðu ekki við. Ég hvet fólk til að lesa ræðuna og sérstaklega Sjálfstæðismenn, Guðna og Steingrím, sem éta hver eftir öðrum rangfærslur um hana.

Ég veit að íslenskir kjósendur eru það skynsamir að þeir láta ekki blekkjast og halda að þetta sé eitthvert allsherjar samsæri gegn forsætisráðherra. Allra síst að Samfylkingin eiga þátt í því. Það er rétt sem forsætisráðherra sagði að Samfylkingin hefði það markmið að koma honum frá en það er eðli stjórnarandstöðuflokka að vilja koma ríkisstjórn frá. Það er ekkert dónalegt við það! Í raun er ótrúlegt að Davíð láti slíkar samsæriskenningar út úr sér þó að hann trúi þeim. Þetta er ekkert annað ótrúlega sorglegt uppgjör fyrrum félaga og fóstbræðra þar sem þeir nota spjall sitt yfir rauðvínsglasi til að koma höggi hvorn á annan. Ég vona að kosningarnar í vor muni snúast um merkilegri mál en þetta og hvet alla flokka að reyna ekki nýta sér það til framdráttar í komandi kosningabaráttu.



Það gekk ekki hjá Pétri í þetta skiptið. Gengur bara betur næst!

þriðjudagur, mars 04, 2003

Pétur Mack er að bjóða sig fram til formans hjá ungum jafnaðamönnum í Reykjavík. Allir að kjósa hann. Áfram Pétur!

Félagar á netinu
Ég mæli með nokkrum félögum hér á netinu. Binni skrifar frá Bristol og segir okkur frá lífinu þar. Hann fræðir okkur um áhugaverða staði, hvernig honum sækist námið og ekki síst um klósettþrif. Mæli með því.

Marý segir okkur allt um lífið í Norwich og hvernig ástarsápan gengur í vinnunni. Gaman að því.

Jæja nú á að taka sig saman í andlitinu og reyna aftur við bloggið. Nú þegar að styttast fer í kosningar og ótrúlegir atburðir eru að gerast hér í þjóðfélaginu getur maður varla orða bundist.

Sú atburðarás sem hefur spunnist eftir að forsætisráðherra sakaði Hrein Loftsson um að hafa haft milligöngu um að bjóða sér mútur er svo ótrúleg og ég sé ekki hvaða tilgangi hún þjónar. Hún getur ekki annað en skaðað alla sem að málinu koma og ekki síst forsætisráðherra sjálfan. Ég veit ekki hvort hugmyndin sé hjá Davíð eftir greinina í fréttablaðinu á föstudaginn sé sú að hann verði að kasta meiri skít en kastað var í hann. En hvernig sem þetta samtals hans Hreins var þá held ég að Davíð hafi getað neitað því að því að hafa minnst á Sullenberger og látið þar við sitja. En það var ekki raunin heldur fullyrti hann að Baugur, Fréttablaðið og Samfylkingin væru í allsherjar samsæri gegn sér. Gott ef að fréttamenn á Stöð 2 taka ekki líka þátt í því í umboði Jóns Ólafssonar. Ég hélt reyndar að það væri ekki mikill vinskapur milli Samfylkingarinnar og Þeirra Baugsfeðga og man ekki betur en að formaður flokksins hafi hafi kallað þá gangstera.

Eins og áður sagði held ég að þetta mál sé engum til framdráttar sem taka þátt í því og ég vona að mínir menn í Samfylkingunni haldi sér sem lengst frá því.

Hver sem sannleikurinn er í þessu máli er ljóst að samskipti forsætisráðherra við Baug eru ekki með feldu



This page is powered by Blogger. Isn't yours?