<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, apríl 30, 2003

Feministapóstlistinn

Ég hef verið að spjalla við feminista á heimasíðu Ernu í dag. Það væri gaman að skrá sig á póstlistann hjá þeim en þegar að ég frétti að nú í apríl mánuði væru búin að berast rúmlega 700 skeyti nenni ég því ekki. Erna lagði til að það yrði stofnaður spjallþráðu en það er ekki í náðinni. Ég gerði nú ekki mikið meir ef ég þyrfti að fara í gegnum 700 skeyti á mánuði fyrir utan allt annað sem maður færi í póstinum.

En þar sem ég er búinn að eyða öllum blogg tímanum mínum á síðunni hennar Ernu þá læt ég það flakka hér sem skrifað var þar. Ef ykkur finnst vanta samhengi í málið þá lesið þið ykkur til hjá Ernu.

Comment 1: Er að tala um (það sem ég hef heyrt um) póstlista feminista
Ég tekið undir það með þér að margt ef ekki flest er öfgakennt þarna og ótrúlegt hvað margir halda að það sé hægt að leysa allt með einhvers konar lögregluvaldi. Feministar sem koma fram í fjölmiðlum eru alltaf svo einstrengingslegar og öfgasinnaðar að flestra mati að þær hafa afar takmarkaðan trúverðugleika. Ef að þeim tækist að breyta þeirri ímynd gætu þær náð mun meiri árangri með því að nota fjölmiðla til að gagnrýna það sem miður fer í samfélaginu. T.d. hvetja fólk til að hætta viðskiptum við fyrirtæki sem fara yfir markið í sínum auglýsingum. Flest ef ekki öll fyrirtækin í landinu kæra sig ekki um að lenda í slíkum aðgerðum og þeirri umræðu sem þeim fylgdi.

Ég get tekið undir það að margar auglýsingar í íslensku sjónvarpi eru ósmekklegar en það er enginn lausn að banna þær. En hvað megum við ungu mennirnir segja. Það er fjöldinn allur af auglýsingum sem sýna unga karlmenn sem einfeldninga ef ekki bjána. Nægir þar að nefna auglýsingar MasterCard. Það sama má segja um auglýsinguna þar sem er verið að auglýsa Pottþétt e-ð geisladisk. Þar sem þrjár stelpur eru að sóla sig og fá unglingspilt til að sprauta á sig sólarolíu. Þegar að ég sá hana fyrst þá hélt ég að hún myndi enda þannig að hann myndi vakna. Ég held að þessi auglýsing geti varla talist niðurlægjandi fyrir kynin og hlutverk þeirra heldur er hún fyrst og fremst niðurlægjandi fyrir auglýsandann.

Comment 2: Binna búinn að dissa ímyndarpælinguna.

Binna þú getur verið þreytt á ímyndarpælingum en það en þær skipta máli ef að ná á til almennings í gegn um fjölmiðla. Við getum tekið Ástþór Magnússon sem dæmi (nú skapa ég mér óvild allra feminista á Íslandi)en hann álitinn hálfgerður trúður hér á landi. Þrátt fyrir hefur hann gert ágætis hluti eins að fara með hjálpargögn til Írak, gagnrýnt framgang stjórnvalda í því máli öllu saman. En hann er lýsandi dæmi um mann sem gengur of langt í öllu sem hann gerir. Ekki ætla ég að letja þig í því að hafa þínar skoðanir og láta þær í ljós, en ef feministafélagið vill skapa sér trúverðuleika þá má ekki alltaf kalla úlfur, úlfur.

Mín skoðun er sú að oft þegar að félög eins og feministafélagið er stofnað er byrjað á vitlausum enda. Eins og umrætt félag hefur helst vakið athygli fyrir að agnúast út auglýsingar. Ég spyr, eru auglýsingar stærsta vandamál íslenskra jafnréttismála? Nei! Auðvitað er launamunur kynjanna eitt stærsta mein okkar samfélags. Hann er auðvitað svo óþolandi að ég er hissa á feministum að nenna að tala um einhverjar auglýsingar þegar að hann er til staðar. Þess vegna verður félagsskapur eins feministar að hafa forgangsröðunina á hreinu!

En auðvita eigum við ekki að draga úr okkar skoðunum eða hika við að láta þær í ljós og síst að láta almenningsálitið breyta þeim. Ég lét það ekki á mig fá þegar að kallar og kellingar sögðu við mig að þau skildu ekki að "fullfrískur ungur maður" skuli taka sér fjögurra mánaða fæðingarorlof. Eða hneykslunin þegar að ég segi þeim að ég hafi hætt vinnunni til að vera heima svo að konan mín geti tekist á við spennandi starf. Dóttir mín er það besta sem ég gert í þessum heimi og það er ekki nokkurt starf sem ég tæki fram yfir að vera með henni. Ég lít á þennan tíma sem við höfum átt saman og komum til með að eiga saman sem forréttindi og viðhorf samfélagsins fá ekki að spilla þeim.

Þess vegna spyr ég feminista þegar að launmunur kynjanna er enn til staðar og til er fólk sem lítur það hornauga að karlmaður taki því fagnandi að fá tækifæri til að eyða miklum tíma með barninu sínu, eru auglýsingar Flugleiða rétt forgangsröðun hjá feministum?

Það verður örugglega framhald af þessu spjalli á morgun svo fylgist þið með.

mánudagur, apríl 28, 2003

Heimavinnandi húsfaðir

Ég hætti í vinnunni í dag svo nú er ég orðinn heimavinnandi húsfaðir í Vesturbænum. Það er ágætt enda ætlum við Solla að hafa það gott hér heima í sumar á meðan Þyrí verður í vinnunni. En auðvitað eru tilfinningarnar blendnar þegar að maður gengur út af vinnustað til þriggja ára með sitt hafurtask. Þetta er búinn að vera lærudómsríkur tími og þarna hef ég unnið með skemmtilegu fólki og kynnst starfsmönnum fjölmargra fyrirtækja og stofnanna. Svo veit ég eitt og annað um almannatengsl en þegar að ég byrjaði hjá KOM fyrir þremur árum vissi ég hvað þau voru. Ég vil þakka vinum mínum hjá KOM fyrir ánægjulegt samstarf.

Nú taka við almenn heimilisstörf og barnauppeldi og svo ætla ég að vinna úr kosningarrannsókn 2003 en ég fékk styrk til þess frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Í haust hefst skólinn þar sem ég ætla að hella mér út í stjórnsýslupælingar af fullum krafti.

Undanfarið hefur vinnan tafið mig frá blogginu en nú get ég farið að einbeita mér að því aftur og lofa betrumbót á blogg leti undanfarna daga. Svo er ég líka hættur að fikta í html-inu þannig að bloggið fer vonandi ekki steik framar.

miðvikudagur, apríl 23, 2003

Afmæli, Þingvellir og Innlit útlit
Nú er ég loksins búinn að laga bloggið. Það hefur verið agalegt ástand á heimilinu í tölvumálum. Bloggið í steik og og nettengingin í ólagi þannig að ég gat lítið gert í því að laga það. En nú er ég kominn aftur í blogg heima.
Svona ykkur að segja að þá átti ég ótrúlega ljúfa páska. Það var ferming á skírdag og þið getið skoða myndir af Sollu sem voru teknar í fermingunni á síðunni hennar. Við fórum á Þingvelli á laugardaginn með pabba og mömmu og vorum nótt í bústaðnum. Mamma átti afmæli svo það var upplagt að drífa hana í sveitina. Elsku mamma, til hamingju með afmælið.

Annars er íbúðin hennar Marý búin að vera í Innlit útlit tvo þætti í röð og verðmæti íbúðarinnar hefur örugglega hækkað til muna svo ég var að benda henni á að selja. En hún vill eiga svona fræga íbúð. Þið getið samt reynt að senda henni tilboð, allt er falt fyrir rétt verð.

Er víst í vinnunni svo ég læt þetta duga í bili en þið getið séð hér hvað ég hef verið að dunda mér við undanfarið í vinnunni.

miðvikudagur, apríl 16, 2003

Agnar Daði Einarsson
Ég sagði ykkur frá því um daginn að Einar og Birna hefðu eignast son um daginn sem er nú er komin með nafn á guttann Agnar Daði Einarsson. Nú er hann kominn með síðu á Barnalandi þar sem er fullt af myndum. Kíkið þið endilega á það.

þriðjudagur, apríl 15, 2003

Búinn að rústa síðunni aftur. Spurning um að gefast upp á þessum teljara.

mánudagur, apríl 14, 2003

Bloggið að komast í fyrra horf
Lenti í þvílíku veseni með bloggið í dag. Ég ofmat html kunnáttu mína og gekk of langt í að fikta í templatinu. En nú er þetta loksins komið í stand nema teljarinn er ekki kominn inn. Er að vinna í honum. Veit einhver hvort ég get notað sama comment-kerfið á nýju síðuna?

Letiblogg, kvikmyndir og bækur
Ég hef ekki staðið mig blogginu undanfarið enda farinn að vinna aftur. Þegar að maður situr fyrir framan tölvu allan daginn og skrifar texta þá nennir maður lítið blogga þegar að heim er komið. Ég skal þó reyna að taka mig á um páskana. Ýmislegat sem ég þarf að ræða við ykkur. t.d. af hverju kosningarbaráttan er svona leiðinleg, líklega þarf ég að hafa fleiri orð um skoðanakannanir og eitthvað fleira.

Langar þó að segja ykkur að ég leigði myndina Steikta græna tómata um daginn og þvílík eðalmynd og bókin er enn betri. Ég hafði ekki séða hana í nokkur ár (fyrir þá sem ekki þekkja hana er hún frá 1991) og hún eldist mjög vel. Svo ef þið fáið eina gamla með á vídeóleigunni ykkar skuluð þið kippa henni með.

Nýtt blogg
Þrátt fyrir að hafa ekki verið öflugur í blogginu þá hef ég ekki verið algerlega aðgerðalaus í þeim pakka. Ég er búin að koma mér upp annarri síðu þar sé ætla að segja ykkur frá áhugaverðum bókum sem ég er að lesa. Ég er búin að skrifa um þrjár bækur All´s fair: Love, War and Running for President, Shadow: Five Presidents and the Legacy of Watergate og Peace, War and Politics: An Eyewitness Account. Allt eðal bækur sem óhætt er að mæla með svo endilega kíkið á það.


Gerði einhvern fjandann og skemmdi bloggið mitt. Þessa vegna er það svo fátæklegt. Fer í það mál að laga það.

föstudagur, apríl 11, 2003

Kærastinn hennar Sollu kominn í heiminn?
Ég vil óska Birnu og Einar til hamingju með soninn sem kom í heiminn í gær. Við sjáum vonandi myndir af honum fljótlega á myndasíðunni þeirra. Elsku fjölskylda, gangi ykkur allt í haginn.

þriðjudagur, apríl 08, 2003

Vinna á morgun
Jæja þá er sælan að verða búin og vinna á morgun. Það er ótrúlegt hvað þetta fæðingarorlof leið fljótt. Það verður svo sem ágætt að kíkja aðeins í vinnuna en einhvern veginn vildi ég frekar vera heima hjá henni Sollu minni. Ef hún hefði fæðst þremur mánuðum seinna ætti við mánuð eftir. Svona er kerfið. Þetta er búið að vera ótrúleg skemmtilegur tími og eitthvað sem ég hefði ekki viljað missa af. Eiginlega finnst mér ótrúleg synd að þetta hafi ekki verið kostur fyrr og hvað margir feður hafa farið á mis við að eiga þennan tíma. Við þá feður sem eiga þessa reynslu eftir segi ég njótið þið hennar í botn. Ég lít glaður til þess að eiga mörg svona orlof eftir (er það ekki Þyrí mín).

Við þá sem voru á móti feðraorlofi á sínum tíma og eru kannski enn vil ég segja að það er talsvert bull í gagni í ríkisútgjöldum en feðraorlof er ekki þar á meðal. Feðraorlof er stórt skref í jafnréttisátt og eykur lífsgæði þeirra sem njóta.

mánudagur, apríl 07, 2003

Hér getið þið séð mynd af mér, Úlfari, Kolfinnu og Tinkí Vínkí á vorþingi Samfylkingarinnar.

laugardagur, apríl 05, 2003

Takk fyrir mig!

Vorum hjá Maju og Finn í gær. Fengum grillaðar kjúklingabringur og grillaða banana í eftirrétt. Þau eru lista kokkar enda maturinn snilld. Takk fyrir okkur! Húsbóndinn sturtaði ótæpilega af viskíi í þá sem þáðu og því er ekki laust við smá þynnku núna. Það var samt enginn miskunn í morgun enda var Solla vöknuð klukkan sjö. Þyrí tók reyndar morgunvaktina svo ég fékk að sofa til níu. Nú sefur barnið í vagninum en frekar en að leggja mig eins öll skynsemi segir mér að gera þá er ég dottinn í bloggið. Mamma og pabbi pössuðu í gær og stóðu sig eins hetjur. Solla gerði það reynda líka enda svaf hún allan tímann.

Kíkti á vorþing Samfylkingarinnar í gær með Úlfari, Kolfinnu og Tinki Vínki. Það var troðfullt á Sögu og Ingibjörg og Össur stóðu sig vel.

Sé að heimsóknir á síðuna eru komnar yfir þúsund. Þúsundasti gesturinn er beðinn að hafa samband því vegleg verðlaun bíða hans.

föstudagur, apríl 04, 2003

Matarboð og afmæli

Sigmundur Ernir var í Íslandi í bítið áðan að kynna nýja könnun. Nú er hann með 1800 manna úrtak svo DV er að taka sig á. Hann virðis þó trúa þriðjudagskönnuninni og sagði að Samfylkingin væri að ná til sín fylgi aftur. Ég held að fylgið hafi aldrei farið neitt. Fyrri könnunin var einfaldlega skökk. En tíðindin í þessari könnun hjá Sigmundi eru þau að Frjálslyndir eru að mælast með 9% sem gefur þeim sex þingmenn. Þannig að ég verð að kaupa DV í dag í þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar. Enda kostar það bara 100 kall!

Vorþing Samfylkingarinnar verður um helgina. Ætli ég kíki ekki þangað á eftir. Annars erum við Þyrí að fara í mat til Finns og Maju í kvöld. Þar verða líka Eiríkur og Pétur. Í svo góðum félagsskap getur kvöldið ekki klikkað. Það væri ekki nema að Solla gerði allt vitlaust og kvöldið yrði endasleppt. En við trúum því ekki fyrr en á reynir. Mamma og pabbi ætla að passa svo hún verður í góðum höndum. Hún sefur vonandi allt kvöldið enda þarf hún að hvíla sig vel fyrir afmælið hans Birgis Inga. Það verður örugglega brjálað stuð og timburmönnum foreldra ekki sýnd nein miskunn.

fimmtudagur, apríl 03, 2003

Ímyndafræðingar og auglýsingar

DV er með enn eina könnunina í dag. Segja að þetta sé ný könnun en mig grunar þó að þetta sé sama könnun og um daginn nema að nú eru þeir að greina Reykjavíkurhluta hennar. Úrtakið er 300 manns og blaðið reiknar út hvaða þingmenn eru inni og hverjir eru úti. Sem eru auðvitað fyndið þar skekkjumörkin eru mikil og ómögulegt að vita hvar uppbótarmenn lenda. Vönduð blaðamennska það!

Ég benti ykkur á það í gær að ég teldi að Borgar væri að fagna sigri og snemma vegna DV könnunarinnar. Það er fleira sem hann talar um í þeim pistli sem mér gremst. Þar talar hann um að Samfylkingin noti ímyndarfræðinga og auglýsingafólk eins og það sé stór synd. Hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei notað ímyndafræðing eða auglýsingastofu? Hannar Kjartan Gunnarsson auglýsingar Sjálfstæðisflokksins? Ég veit ekki betur en allir flokkar noti auglýsingarstofur og ekkert um það að segja. Reyndar held ég að í kosningarbaráttu eins og er framundan þá skipti auglýsingar mjög litlu máli og séu sóun á peningum. Flokkur getur ekki skapað sér ímynd eða trúðverðuleika með auglýsingum. Eina skiptið sem stjórnmálaflokkar eiga að nota auglýsingar er til að auglýsa fundi eða aðrar uppákomu á vegum hans. En þá skiptir auðvitað máli að þær séu fallegar og í takt við skilaboð flokksins. Vondar auglýsingar geta skemmt fyrir flokkum en góðar auglýsingar færa þeim ekki fylgi einar og sér. Þetta veit Sjálfstæðisflokkurinn og er þess vegna löngu hættur að láta Kjartan hanna auglýsingarnar.

Ungir jafnaðarmenn opnuðu nýja vef í kvöld, lifandi.is, hvet ykkur til að kíkja á hann.

Athyglisvert að sjá að framsóknarmenn hafa opnað kosningarmiðstöð í gamla rafveituhúsinu. Alfreð hlýtur að hafa reddað þeim góðum díl þar.

miðvikudagur, apríl 02, 2003

Mér sýnist Borgar vinur minn falla í þá gryfju að lesa of mikið úr DV könnuninni frá því í gær og talað er um hér að neðan.

Skoðanakannanir

Þessar skoðanakannanir sem hafa verið að birtast undanfarna daga hafa verið misvísandi og erfitt að lesa í þær. Það er t.d. er ótrúlegur munur á könnunum Fréttablaðsins og DV sem birtar voru með dags millibili. Ég á erfitt með því að trúa að geðsveiflur þjóðarinnar séu jafnmiklar og þær gefa til kynna. Þarna held ég að sé að sannast það sem Þorlákur sagði í aðferðafræðinni í gamla daga að sex hundruð manna úrtök eru of lítil. Það hafa t.d. verið miklar sveiflur milli vikna í Fréttablaðskönnununum en þegar að tekið er saman mánaðar meðaltal þá eru þær á svipuðu róli og Gallup. Einnig held ég að það megi setja spurningamerki við margt í aðferðafræði Fréttablaðsins og DV. T.d. bara það eitt hvað er gerð lítil grein fyrir því hver hún en. Blöðin segja að talað sé við 600 manns en ekki sagt hvað þurfti að hringja í marga til að fá svör þessum fjölda. Þau gera heldur aldrei grein fyrir því hvernig úrtakið er fengið. Ég veit það reyndar að þau búa til sín úrtök úr símaskránni og þó að sími sé almenningseign á Íslandi eru einhverjir sem eru ekki skráðir í þá ágætu bók.

Þess vegna finnst mér alltaf hjákátlegt þegar að leiðarahöfundar þessara blaða eru að lesa stórpólitísk tíðindi úr þessum könnunum og gott ef það var ekki talað um þáttaskil í kosningarbaráttunni eftir DV könnunina. En þetta selur af því að það er fólk eins og ég sem hleypur eftir þessu. Nú ætla ég bara bíða eftir næstu könnun frá Gallup eða Félagsvísindastofnun þrátt fyrir að þær spái aðeins með 95% vissu og að vikmörkin séu 3-4%. (Kannski að ég bíði bara eftir úrslitum kosninganna).

Þeir sem eru að bíða geta stytt sér stundir með því að að skoða nýjar myndir af Birnu og Einari. Þar virðist bumban blómstra enda fer að bresta á með barni hjá þeim. Þau skrifuðu einmitt um áhrif skoðanakannana á úrslit kosninga. Gaman að því.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?