<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 14, 2006


Golf með Bandaríkjaforseta?

Kynlífshneyksli halda áfram að ásækja Repúblikanaflokkinn en nú er nýkjörinn ríkisstjóri Nevada, Jim Gibbons, er sakaður um kynferðislega árás á gengilbeinu á veitingastað í Las Vegas. Þetta hefur komist í hámæli hér vegna aðildar vestur-Íslendingsins og fyrrum sendiherra hér á landi að málinu. Fyrir nokkrum árum hitti ég þennan Gibbons þegar að hann kom hingað til lands sem hluti af bandarískri þingnefnd. Ég hafði reyndar lítið af Gibbons að segja og held að hann hafi verið til friðs þegar að hann var hér á landi. Kynntist reyndar betur þingmönnunum Jay Inslee frá Washington og Ron Kind frá Wisconsin. Ég fór með þeim og konunum þeirra einn hring á golfvelli Keilis í Hafnafirði. Þingmennirnir voru heillaðir af vellinum enda aldrei spilað í hrauni áður né upplifað það að geta spilað golf fram að miðnætti. Nú er ég að vonast til þess að annar þessara mætu manna verði forseti í framtíðinni svo ég geti stært mig af því að hafa spilað golf með forseta Bandaríkjanna.

laugardagur, nóvember 11, 2006

Þriðju tölur hjá Sjálfstæðisflokknum:

1. Þorgerður
2. Bjarni
3. Ármann
4-5. Ragnheiður Ríkharðsdóttir
4-5.Jón Gunnarson
6. Ragnheiður Elín

Ja hérna ég hef bara ekki séð að fólk sé í sama sæti. Hörku spenna.

Þriðju tölur komnar hjá Samfylkingu:

1. Ingibjörg
2. Össur
3. Jóhanna
4. Ágúst
5. Helgi
6. Ásta
7. Mörður
8. Steinunn
9. Kristrún
10. Valgerður

Guðrún Ögmunds þarf að fá sér nýja vinnu.

Mikil spenna í hjá Samfylkingunni i Reykjavík og Sjálfstæðismönnum í Kraganum. Talsverðar hreyfingar frá fyrstu og öðrum tölum á báðum stöðum.Þriðjur tölur væntanlegar.

Jæja þá er Solla loksins búin að uppfæra heimasíðuna sína með nýjum myndum. Þeir sem þekkja okkur ættu endilega að kíkja á hana og skrifa e-ð í gestabókin. Hún ætlar að setja inn fleiri myndir næstu daga meðal annars úr fjögura ára afmælinu.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Spennandi prófkjörshelgi

Önnur stór prófkjörshelgi framundan, Samfylkingin í Reykjavík og Sjálfstæðisflokkurinn í Kraganum og Suðurkjördæmi. Allt spennandi prófkjör en mismikið þó. Hjá Sjálfstæðiflokknum í Kraganum virðast Þorgerður Katrín og Bjarni nokkuð örugg með fyrstu tvö sætin og spennan aðallega um þriðja sætið en þar takast á Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Ármann Kr. Ólafsson. Ragnheiður nýtur þess líklega að vera sterkur og vinsæll bæjarstjóri en Ármann er úr Kópavoginum en það hefur oft loðað við þetta kjördæmi að kosið er eftir póstnúmerum. En það sem vekur mesta athygli mína við þetta prófkjör er þó aðeins tíu manns lýstu yfir framboði sínu og kjörstjórn sá sig knúna til að bæta við einum frambjóðanda, Pétri Árna Jónssyni, eftir að framboðsfrestur rann út. Ellefu manns eru því um hituna í prófkjörinu. Þessi litli áhugi er ótrúlegur þar sem flokkurinn hefur nú þegar fimm sæti í Kraganum og allar líkur á að hann bæti við sig því sjötta þar sem þingsætum fjölgar úr ellefu í tólf í kjördæminu. Einnig eru að losna tvo þingsæti hjá flokknum þar sem Árni M. Mathiesen færir sig yfir Suðurkjördæmi og Sigríður Anna Þórðardóttir er að hætta. Í raun má tala um að þrjú sæti séu að losna þar Gunnar Birgisson var í þriðja sæti síðast en er orðinn bæjarstjóri í Kópavogi. Spurning hvort að fólk er farið að setja fyrir að taka þátt vegna mikils kostnaðar. Í sama kjördæmi buðu sig 17 fram hjá Samfylkingunni en í því prófkjöri var algert auglýsingabann. En þetta er víst ekki spurning um magn heldur gæði og ljóst að listi Sjálfstæðisflokksins í Kraganum verður mjög sterkur.

Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi er mesta spennan í kringum Árna Johnsen og gengi hans. Ég sagði í Blaðinu í dag að Árni væri wildcard í prófkjörinu, annað hvort tekur hann annað sætið með stæl eða verður ekki í topp fimm. En eyjamenn hafa alltaf verið duglegir að taka þátt í prófkjörum svo allt getur gerst. Ég held reyndar að það væri sterkast fyrir flokkinn ef Drífa myndi hreppa annað sætið. Svo er spurning með útlagana Gunnar Örlygsson og Kristján Pálsson. Ég held að Gunnar muni ekki hljóta náð í augum kjósenda Sjálfstæðisflokksins frekar en aðrir flokkaflakkarar en sem dæmi um þetta má nefna útreiðina sem Oktavía Jóhannesdóttir fékk hjá sjálfstæðum Akureyringum. Erfiðara er að spá um gengi Kristjáns enda ekki margir Suðurnesjamenn sem taka þátt í prófkjörinu og stuðningur þungvigtamanns eins Árna Sigfússonar getur skipt máli. Ég held þó að flestir Sjálfstæðismenn séu ekki búnir að fyrirgefa honum sérframboðið 2003 og þess vegna gæti hann orðið sár eftir morgundaginn.

Prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík er einnig mjög spennandi, Ingibjörg, Össur og Jóhanna líklega örugg með þrjú fyrstu sætin en svo eru sjö sem keppast um fjórða sætið. Ég held að ómögulegt sé að spá um hvernig fer þar og ég geri ráð fyrir að fá atkvæði ráði úrslitum. Þetta mun sjálfsagt gagnast sitjandi þingmönnum en ég held að Steinunn Valdís og Kristrún Heimisdóttir eigi eftir að blanda sér í slaginn og því líklegt að einhverjir þingmenn koma til með að falla. En hverjir það verða þori ég ekki að spá um og þar ræður líklega mest um þátttaka og veður.
Ég þori ekki að spá fyrir röð fólks í þessum prófkjörum en bendi á spámanninn Pétur Gunnarsson en hann hefur sett fram spá um prófkjör sjálfstæðisflokksins lesendur hans hafa einnig verið duglegir að spá í commentakerfinu. Ef einhver er að lesa þessa síðu megið þið endilega leggja fram ykkar spá í commetin. Ef einver er með fullt hús (þ.e. spáir rétt um öll prófkjörin) eru vegleg verðlaun í boði.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Spenna í Bandaríkjunum

Sem sérstakur áhugamaður um kosningar og ekki síst kosningasjónvarp ætla ég að fylgjast með kosningunum í Bandaríkjunum í nótt. Spurning hvort ég kíki ekki á Stúdentakjallarann en það verður örugglega áhugavert skv. auglýsingu frá Alþjóðamálastofnun:

Sendiráð Bandaríkjanna, Alþjóðasamfélagið - félag meistaranema í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands og Alþjóðamálastofnun standa fyrir kosningavöku til að fylgjast með úrslitum þingkosninganna í Bandaríkjunum á risaskjá!

Húsið opnar kl 22:00 og lokað verður milli kl. 2:00 og 3:00.

Meðan beðið er eftir fyrstu tölum mun Brad Evans, stjórnmálarerindreki í sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi spjalla um bandaríska stjórnkerfið og kosningafyrirkomulag og Mike Corgan, dósent við Boston-háskóla og gestakennari við stjórnmálafræðiskor HÍ og Silja Bára Ómarsdóttir, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar HÍ spá í spilin.
Ókeypis aðgangur og tilboð á barnum.

Komdu og fylgstu með spennandi slag Demókrata og Repúblikana um sæti á Bandaríkjaþingi!

Kynjahlutfall á Alþingi

Á póstlista Femínistafélagsins er verið að spá í hvaða áhrif gengin prófkjör hefðu á kynjahlutfallið á Alþingi eftir næstu kosningar. Þar sem frekar fáir listar eru komnir fram er frekar erfitt að reikna slíkt út og einnig er spurning um hvaða forsendur maður gefur sér. Þó kynjahlutfallið er reiknað út frá ákveðnum forsendum verður það samt aldrei annað en leikur að tölum en þar sem ég hef gaman af slíkum leikjum lét ég vaða.

Þeir listar sem þegar eru komnir fram annað hvort með prófkjörum eða kjördæmaþingi er listi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, listi Samfylkingar og Framsóknar í Kraganum og listar Samfylkingar í Norðvestur-, Norðaustur og Suðurkjördæmum.

Þessir listar fengu 22 þingmenn kjörna eftir síðustu kosningar og þar af sjö konur (32%). Nú sitja reyndar átta konur á þingi (36%) fyrir listana eftir að Ásta Möller kom inn fyrir Davíð Oddsson. Ef þessir listar fá sama fjölda þingmanna eftir næstu kosningar verða konurnar sex (27%). Breytingin sem verður er að enginn kona kemst inn hjá Samfylkingunni í NV, en þar er ein kona nú, og þingkonur Samfylkingar í Kraganum verða tvær en eru þrjár nú. Þingkonur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verða tvær í staðinn fyrir ein eins og eftir síðustu kosningar. En eins og áður sagði eru þær reyndar orðnar tvær nú.

En til að flækja málið meira og gera útreikningana enn óábyrgari skoðaði ég þetta einnig út frá nýjustu könnun Gallup.

Ef bara er horft til þeirra lista sem komnir eru fram og skoðaðir voru hér að ofan verða konurnar sex af 21 þingmanni (29%) sem þessir listar fá samkvæmt könnuninni. Breytingin fá síðustu kosningum er að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík fær fjórar þingkonur í staðinn fyrir eina síðast, en þingkonum Samfylkingar fækkar um þrjár (kraganum, Suður og NV) og Siv kemst ekki inn í Kraganum.

En eins og áður sagði þá eru margir listar óskipaðir því ómögulegt að spá fyrir um hlutfall kvenna á þingi eftir næstu kosningar enda vantar stærstu breytuna inn í dæmi sem eru kosningaúrslitin. Sem dæmi má nefna að ef fyrrnefnd könnun Gallup gengi eftir fjölgar þingmönnun Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs um átta. Þar sem VG er með fléttulista ætti þingkonum flokksins að fjölga úr tveimur í sex til sjö. En á móti kemur að skv. könnuninni þá ná Framsóknarkonurnar Siv og Jónína Bjartmarz ekki inn á þing og líkur til að þingkonum flokksins í NV fækki úr tveimur í eina. Skv. könnuninni tapar Samfylkingin þingmönnum og líklegt að þar verði einhverjar konur þó að kynjahlutfallið í þingflokknum geti haldist óbreytt. Eins og áður hefur komið fram getur þingkonum í Sjálfstæðisflokksins fjölgað ef hann nær því fylgi sem könnunin spáir.

En þetta bara leikur að tölum og enn eru alltof margir óvissuþættir til að hægt sé að taka þetta of alvarlega. En það er um að gera að halda áfram að skoða þetta eftir því sem framboðslistum fjölgar.

mánudagur, nóvember 06, 2006

Þrír karlar í þremur efstu eins og spáð var. Konur eru ekkert að fara á kostum hjá Samfylkingunni spurning hvaða áhrif það kemur til með að hafa á það mikla fylgi sem Samfylkingin hefur haft meðal kvenna. Meira um það síðar.

Ragnheiður aftur komin í annað sætið.

Og spennan er gríðarleg. Lúðvík kominn í annað sætið og Björgvin búinn að tryggja sér fyrsta sætið. Mér sýnist líka að Róbert félaginn minn sé á leið á þing.

Staðan þegar að þegar talin hafa verið 4400 atkvæði af 5146:

Björgvin G. Sigurðsson
Lúðvík Bergvinsson
Róbert Marshall
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Jón Gunnarsson
Guðrún Erlingsdóttir

Róbert kominn yfir Lúðvík í öðrum og þriðju tölum. Það verður greinilega spennandi að fylgjast með talningunni í kvöld!

Staðan þegar að búið er að telja helming atkvæða:

Björgvin G. Sigurðsson
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Róbert Marshall
Lúðvík Bergvinsson
Jón Gunnarsson
Guðrún Erlingsdóttir

Getur samt allt gerst ennþá því aðeins munar fjórum atkvæðum á Ragnheiði og Lúðvík í annað sætið. Ef staðan verður svona þarf Alþingismaðurinn Jón Gunnarsson að skipta um sæti við Guðrúnu svo hann missir sitt sæti í vor.

Jæja, fyrstu tölur komnar frá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi:

Björgvin G. Sigurðsson
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Lúðvík Bergvinsson
Róbert Marshall
Jón Gunnarsson

Ragnheiður kemur á óvart enda flestir búnir að spá körlum þremur efstu sætunum. Reyndar aðeins búið að telja 30% atkvæða svo við fylgjumst spennt með.

laugardagur, nóvember 04, 2006

Súper laugardagur

Nú er stóra prófakjörshelgin runnin upp og spennandi að fylgjast með úrslitum helgarinnar. Samfylkingin er með þrjú prófkjör í Suðvestur-, Suður- og Norðvesturkjördæmum. Framsóknarflokkurinn er svo með kjördæmaþing í Kraganum. Hjá Samfylkingunni er verið að kjósa nýjan leiðtoga bæði í Kraganum þar sem Guðmundur Árni er hættur og Rannveig hættir í vor og í Suðurkjördæmi e Margrét Frímanns að hætta. Það verður því spennandi að fylgjast með hver verður hlutur kvenna í þessum prófkjörum. Eins og staðan er nú lítur ekki út fyrir að hlutur kvenna á alþingi muni aukast í vor. Eins Óli Harðar benti á í ráðstefnunni konu og stjórnmál þá eru fáar konur á Alþingi á mest leyti landsbyggðarvandi. Í undaförnum kosningum þá hafa hefur hlutfall þingkvenna sem úr kjördæmum höfuðborgarsvæðisins vera nálægt 40% og þetta hlutfall hefur einungis verið um 20% í landsbyggðarkjördæmunum.Ýmislegt bendir til þess að eftir þessar kosningar eigi þetta hlutfall eftir að versna. Eftir prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi síðustu helgi minnkuðu líkurnar á því að nokkur kona verði í þingmannahópi þess kjördæmis eftir næstu kosningar.Eins og áður sagði er Margrét Frímanns að hætta og líklegt að karlar raði sér í þrjú efstu sætin í Hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi. Í sama kjördæmi er hart sótt að Sjálfstæðiskonuninni Drífu Hjartadóttur og sama má segja um félaga hennar Arnbjörgu Sveinsdóttir í Norðausturkjördæmi. Í því kjördæmi er Dagný Jónsdóttir að standa upp úr sem verður líklega eitt af fáum öruggum þingsætum Framsóknarflokksins eftir næstu kosningar. Því getur það gerst að hlutfall þingkvenna af landsbyggðinni lækki en frekar.

Í ljósi þessa hef ég tekið þátt í fjörugum um ræðum á póstlista femínistafélagsins um leiðir til að jafna hlut kynjanna á framboðslistum og þá um leið á Alþingi. Sitt sýnist hverjum og niðurstaðan að hvorki prófkjör né uppstilling séu neinar töfralausnir. Með uppstillingu er hægt að tryggja jafnt hlutfall kynja á listum og konur „örugg“ sæti. Uppstilling er heldur ekki alltaf notuð til að jafna hlut kynjanna á listum ef þar eru karlar sem sitja fastir fyrir. T.d. kæmi mér mjög á óvart ef hróflað yrði við þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi en þar eru þrír karlar. En ég bind þó vonir við að þar hreppi kona fjórða sætið en eins og einhverjir muna voru fimm efstu sæti listans skipuð körlum í síðustu kosningum eftir umdeilt prófkjör. Einnig hefur oft komið fyrir að frambjóðendur hafi farið í fýlu og jafnvel sérframboð eins og Kristján Pálsson fyrir síðustu kosningar. Prófkjör hafa auðvitað þann kost að frambjóðendur eru líklegri til að sætta sig við niðurstöðuna og þau hafa líka oft tryggt ákveðna endurnýjun á listum.

Önnur leið er að láta einhverja stofnanir flokkana velja listana. Framsóknarflokkurinn fór þessa leið í einhverjum kjördæmum fyrir síðustu kosningar og ætla einnig að viðhafa hana nú. Framsóknarmenn ætla að láta tvöfalt kjördæmaþing velja listana hjá sér en þetta er 400-500 manna samkomur og má ætla (alla vega í tilviki Framsóknarflokksins) þar séu saman komnir virkustu félagar flokksins í hverju kjördæmi. Kosturinn við þessa aðferð er hún hefur yfir sér lýðræðislegan blæ og því líklegra að frambjóðendur uni niðurstöðunni. En helsti kosturinn er að hjá Framsóknarflokknum er kosið um hvert sæti þ.e. fyrst er kosið um fyrsta sætið og þegar niðurstaða er fengin er kosið um annað sætið og svo koll af kolli. Þannig geta þingfulltrúar passað að ákveðið jafnvægi sé í listanum hvort sem horft er til kyns, landshluta, aldurs eða hvað annað sem taka þarf tillit til þegar settur er saman framboðslisti. Þessi leið hefur heldur ekki í för með sér þann gríðarlega kostnað sem fylgir prófkjörum. Fulltrúar á slíku þingi er þekkt stærð svo að duglegur frambjóðandi með góðan síma getur hringt í þá alla og kynnt sig. Ég kem alla vega til með að fylgjast spenntur með hvernig þessi aðferð gengur hjá Framsókn.

Svo er auðvitað til önnur leið sem mér finnst femínistar hafa ekki haldið nægjanlega á lofti en það er að stækka kjördæmin og helst að gera landið að einu kjördæmi. En það held ég að væri fljótvirkasta leiðin til að jafna kynjahlutföllin á Alþingi. Sem dæmi mán nefna að Sjálfstæðisflokkurinn (en þetta á auðvitað við um aðra flokka líka) fékk 22 þingmenn kjörna í síðustu kosningum og þar af fjórar konur. Ef landið hefði verið eitt kjördæmi dettur einhverjum í hug að flokkurinn hefði aðeins haft fjórar konur í 22 fyrstu sætunum á listanum?

föstudagur, nóvember 03, 2006

Finnsdóttir eða Beck?

Ég vil óska Finni og Maju innilega til hamingju með nýfædda dóttur. En það má sjá myndir af henni á heimsíðu stolts föður.

Í dag er starfsdagur í leikskólanum og við Solla eigum því frí í dag. Eins og þeir sem eiga börn í skólum eða leikskólum geta slíkir starfsdagar eða vetrafrí valdið foreldrum mæðu. En ég verð nú að segja að mér finnst ósköp notalegt að fá svona aukadag með Sollu þar sem við höfum ekkert að gera nema að snúast í kringum okkur sjálf. Í dag þá leyfðum við okkur að kúra aðeins lengur og tókum svo góðan tíma til að koma okkur á fætur. Þrátt fyrir að nú sé bara hádegi erum við búin að fara í góðan göngutúr um Þingholtin, róla okkur, kíkja í dótabúð og nú sitjum við á Kaffitári og sötrum kaffi og súkkulaði. Dagarnir gerast varla betri.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Össur Skarphéðinsson er skyldulesning í dag. Þó vel sé fært í stílinn leynast örugglega sannleikskorn í pistlinum. Lesningin er alla vega tímans virði.

Þjóðernisflokkur á Íslandi?

Grein Jóns Magnússonar í Blaðinu í dag er athyglisverð. Í greinin, sem ber nafnið Ísland fyrir Íslendinga, fjallar Jón um aukinn straum útlendinga til landsins og finnst nóg um. Hann tekur reyndar fram að hann hafi ekkert á móti kristnu fólki úr okkar heimshluta en vill samt ekki sjá of mikið af því hér á landi. Hann vill greinlega ekkert fólk úr öðrum heimshlutum og alls ekki „fólk úr bræðralagi Múhameðs“. Eins og þeir sem sáu viðtalið við mig hjá Agli Helgasyni um kosningahegðun kynjanna á sunnudaginn vita komum við aðeins inn á það hvort hætta sé á hér verði stofnaður þjóðernisflokkur. Ég tel að slíkt geti alveg gerst hér eins og annar staðar í Evrópu og benti á að ef einhver eða einhverjir sem hefðu kjörþokka myndu taka þetta mál upp á sína arma er ómögulegt að vita hvernig slíkum flokki myndi ganga. Jón Magnússon var formaður Nýs afls (gekk reyndar ekkert í síðustu kosningum svo það er spurning með kjörþokkann) sem nú er runnið inn í Frjálslynda flokkinn. Ég velti fyrir mér hvort að Frjálslyndi flokkurinn ætli að taka upp þessar hugmyndir Jóns ef gagnrýni á kvótakerfið virðist ekki ætla að skila þeim á þing?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?