<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, júlí 31, 2003

En nú virðist teljarinn vera bilaður aftur. Ekki eins gaman að því!

Fékk teljarann loksins til að virka aftur! Gaman að því!

miðvikudagur, júlí 30, 2003

Solla varð tíu mánaða í gær og af því tilefni skrifaði hún pistil á síðuna sína og setti inn nokkrar myndir sem Frexið tók af henni.

þriðjudagur, júlí 29, 2003

Binni er greinleg að missa það yfir ritgerðinni sinni en ég mæli samt með skemmtilegri úttekt hans á spelling í word!

Gleði á Þingvöllum

Við skunduðum á Þingvöll síðustu helgi enda lánuðu tegndó okkur bústaðinn. Fjölmargir kíktu í heimsókn og héldu uppi í stuði með drykkju, áti og almennum skemmtilegheitum. Bústaðaferðir með vinunum hafa reyndar tekið á sig breytta mynd enda börn farið að setja sitt mark á ferðirnar. Einar og Bryndís komu með gúbbana sína og Úlfar mætti með Kolfinnu og svo lét Solla sig auðvitað ekki vanta. Það mættu reyndar nokkrir barnleysingjar en þeir stóðu sig ekki síður en foreldrarnir í uppeldinu. Kolla og Haukur komu á föstudagskvöldið og sögðu börnunum allt um fugla Íslands og Arnar og Möddi tóku svo við á laugardaginn. En sem sagt mikið stuð þrátt fyrir að menn hafi verið misgáfulegir þegar að þeir vöknuðu til barnanna kl. sjö á morgnanna.

Gleðin í bústaðnum var ekki síst haldin til að kveðja Mödda en hann er snúinn aftur til New York til sinnar heittelskuðu og við eigum varla von á að sjá hann hér á Fróni fyrr en næsta sumar. En við erum búin að fá að hafa hann svo lengi að nú má Erna.

Arnar tók fullt af myndum sem þið getið skoðað hér.

föstudagur, júlí 25, 2003

Vont PR

Olíuverslun Íslands eða Olís á, eins og hin olíufélög landsins, erfitt þessa dagana og ekki ætla ég að vorkenna þeim og vona að þau fái vænan skell fyrir framgöngu sína gegn þjóðinni. Þess vegna hafa menn þar á bæ litið á það sem ljós í myrkrinu þegar að að áhorfendur Ísland í bítið völdu Litlu kaffistofuna (sem er olísbensínstöð) sem bestu vegasjoppuna. Þrátt fyrir að þetta væri nauðaómerkileg könnun (aðferðafræðilega séð) voru Olísmenn svo kátir að þeir vöktu athygli á titlinum með heilsíðu auglýsingu í Mogganum í gær. Þessi auglýsing sýnir að Olís hefur á sínum snærum afskaplega vonda PR menn ef einhverja. Ein af grunnreglum í áfallastjórnun fyrirtækja er að hætta öllum auglýsingum á meðan áfallið gengur yfir nema að auglýsing beinlínis tengist áfallinu. Svona auglýsingar eiga að minna á fyrirtækið og helst þannig að jákvæð hugsun skjóti upp í koll þeirra sem lesa. En þessi auglýsing hefur þveröfug áhrif. Hún minnir fólk á svínaríið og flestir hafa hugsað þeim þegjandi þörfina. Eins og staðan er hjá olíufélögunum þessa dagana er best að fólk hugsi sem minnst um þau. Þau eiga alla vega ekki að hafa frumkvæði að því að minna á sig.

Bullið í Pétri Blöndal

Málflutningur Pétur Blöndal í þessu máli hefur verið ótrúlegur. Þrátt fyrir að hafa þveröfugar skoðanir og Pétur í flestum málum hefur mér þótt hann heill í sínum málflutningi hingað til. Hann hefur verið einn að fáum þingmönnum íhaldsins sem virðist hafa sjálfstæða hugsun og þorað að tjá sig án þess að éta upp línuna frá Valhöll. Í einhverjum spjallþættinum um daginn sagðist hann ekki leggja í vana sinn að tjá sig um einstök mál (Pétur Blöndal!!!!!!) og var svo kominn í eitthvað þvarg um frönsku byltinguna og þrískiptingu ríkisvaldsins. Í morgun sagði hann að það sem þyrfti að hafa forgang í rannsókn á samráði olíufélaganna væri hver hefði lekið frumskýrslunni. Það má vera að það sé alvarlegt mál að skýrslan hafi lekið en það þykir mér léttvægt miðað við ótrúlega ósvífið samráð olíufélaganna og mér liggur við að segja þjófnaður þeirra. Ég er farinn að halda að Pétur eigi svo mikið af hlutbréfum í olíufélögunum að hann eigi virkilegra hagsmuna að gæta!

þriðjudagur, júlí 22, 2003

Hálfur haus?

Ég er kominn á fullt á í kosningarannsókn 2003 og óhætt að segja að þar eru fullt af spennandi niðurstöðum og íslenskir kjósendur koma sífellt á óvart. Segi ykkur kannski betur frá því seinna.

Sjá fleiri einhverjar skrýtnar myndir hérna á blogginu hjá mér. Það eiga bara að sjást ávextir en ég er ekki frá því að það sé hálfur haus sem virðist fylgjast grannt með öllum sem fram fer. Látið mig endilega vita hvort þið sjáið þetta líka.

föstudagur, júlí 18, 2003

Golfið var fínt í gær þó það fari engum sögum af góðum árangri. Tók reyndar fyrstu holuna á þremur yfir eins og Tiger á sjö höggum og þremur yfir pari. En það var frábært veður og við spiluðum á stuttermabolum til að verða eitt í gærkvöldi. Ég hugsa að ég væri miklu betri í golfi ef við fengjum fleiri svona daga hér á Íslandi.


Solla er orðin fullfrísk og er að fara í næturpössun hjá tengdó í kvöld og við þyrí ætlum í partý hjá Önnu og Tjörva en þau eru að snúa aftur í handboltann í Danaveldi.

Ætla að skella mér í klippingu í tilefni dagsins og bendi á ágætan pistil Hjartar um hárskurð.

fimmtudagur, júlí 17, 2003

Veikindi og golf

Solla hefur verið veik undanfarna daga. Til að byrja með var þetta ekkert alverlegt, kvef og smá hiti. En í gær rauk hún í næstum 40 stiga hita og þá drifum við okkur með hana til læknis. Það sem byrjaði sem nokkuð saklaust kvef er komið í eyrun á henni og eyrnabólgan er svo mikil að læknirinn fullyrti að ekki væri hjá því komist að gefa henni sýklalyf. Þrátt fyrir að það hafi gengið á ýmsu við að fá hana til að taka lyfið er hún orðin hitalaus. En við Solla þurfum samt að vera inni í dag en getum huggað við að British Open er í sjónvarpinu.

Þaðan er það helst að frétta að Tiger byrjaði illa og spilaði fyrstu brautina á sjö höggum eða þremur yfir pari en er nú sjöundu braut og er tveimur höggum yfir pari. Hann byrjaði þó ekki eins illa og Jerry Kelly sem spilaði fyrstu brautina á ellefu höggum eða sjö yfir pari og er nú á níundu braut á tíu höggum yfir pari. Ef þið eruð í vinnunni og sjáið ekki sjónvarp getið þið fylgst með á heimasíðu keppninnar.

Ég ætla að skella mér í golf í kvöld þó það verði hjákátlegt ef ekki sorglegt að fylgjast með eigin spilamennsku eftir að hafa fylgst með öllum þessum snillingum í dag.

þriðjudagur, júlí 15, 2003

Velkomin í bloggheiminn!

Þórlaug og Einar eru loksins komin í hóp bloggara. Það verður gaman að fylgjast með þeim enda eru þau að undarbúa fjölgun mannkyns. Ótrúlegt að ég hafi verið á undan Þórlaugu að koma upp bloggsíðu því að þegar að við vorum saman í stjórnmálafræði í den var Þórlaug tölvunördinn í hópnum. Velkomin í hóp bloggara og standið ykkur nú, bæði í blogginu og barneignum.

mánudagur, júlí 14, 2003

Ósmekkleg markaðssetning Íslandsbanka!

Það er er hvergi hægt að vera óhultur fyrir auglýsingum þar eru börnin okkar engin undantekning. Um daginn keypti ég myndabandsspólu handa Sollu, Söngvaborg 2, en þar syngur Sigga Beinteins barnalög ásamt nokkrum krökkum. Það koma mér mjög á óvart að í upphafi spólunnar voru auglýsingar! Það fannst mér afskaplega ósmekklegt þar sem þetta er ætlað börnum. En svo féllust mér hendur því að inn í þættum þá kemur fram brúða sem er sparibaukur frá Íslandsbanka sem syngur með Siggu og krökkunum um að Georg (sparibaukur) sé vinur þinn. Það er að verða æ algengara að fyrirtæki kaupi sig inn í margskonar dagskrárgerð og sú þróun er mjög umdeild enda oft mjög erfitt að greina á milli hvað er raunveruleg dagsskrárgerð og hvað er keypt umfjöllun (þegar að ég var í PR bransanum var mér boðið að kaupa heilann þátt af Reykjavík síðadegis á 70 þúsund kall). Ef við fullorðna fólkið eigum erfitt með að greina þar á milli hvernig í ósköpunum eiga börnin að geta gert það? Það kemur mér mjög á óvart að Íslandsbanki skuli taka þátt í svona ósmekklegri markaðssetningu. Ég vil hvetja fyrirtæki til að hugsa sig vandlega um áður en þau leggja út í slíkt enda hefur Íslandsbanki örugglega fallið talsvert í áliti hjá fjölmörgum foreldrum.


Fín helgi

Annars áttum við ágæta helgi hér á Eggertsgötunni. Arnar og Mirju-Lisa komu í grill á föstudaginn. Arnar mætti með eðalsteik frá Gæðafæði sem hafði farið í gegn um gæðastjórnunaferlið hjá Frexinu. Gott ef hann slátraði ekki svíninu líka. Við Þyrí vorum að kveðja Mirju enda ætlar snúa aftur til Finlands í vikunni. Í haust sjáum við reyndar líka eftir Arnari í vodka og gufubað. Kristján bróðir kom svo til landsins í gær og ætlar að vera fram á haust. Gott ef við fáum ekki að hitta kærustuna hans, Susanne, einhver tímann í ágúst.

Ég ætla að skella mér í golf á eftir enda sólin farin að skína og vonandi helst það þannig. En ég ráðlegg þeim sem hafa ekki tök á að fara í golf að horfa á Museum Mysteries. Ég horfði á fyrsta þáttinn þar sem ýmsir gripir Smithsonian safnsins voru sýndir. Kvöld á heimsækja breska þjóðminjasafnið og ég er viss um að fólk verður ekki yfir vonbriðgðum. Svo er West Wing strax á eftir. Sem sagt eðal sjónvarpskvöld!

föstudagur, júlí 11, 2003

Sellupenni!

Sendi inn grein á Selluna í dag og þar með kominn í hóp valinkunnra Sellupenna. Gaman að því!

þriðjudagur, júlí 08, 2003

Vorhreingerning?

Nú er Solla búin í aðlögun á leikskólanum og þetta hefur gengið ágætlega. Það er smá sorg þegar að ég fer með hana á morgnanna en að sögn fóstranna þá jafnar hún sig fljótt á því. Vön manneskja segir mér að það taki 3-4 vikur að ná fullri sátt um leikskólann. Ég vona amk að það taki ekki lengri tíma.

Þá er bara að skella sér í kosningarannsóknina en ég bíð en eftir því að fá gögnin í hendurnar frá Félagsvísindastofnun en það verður vonandi í vikunni. Svo ég er byrjaður á vorhreingerningunni (sem ekkert varð af í vor) og er þegar búinn með eldhúsið. Svo var okkur farið að vanta svo mikið skápa og skúffupláss að við Þyrí eyddum helginni í að fara í gegnum slíkar hirslur á heimilinu. Við ætluðum pakka eitthvað að þessu dóti niður í geymslu en flest sem mátti missa sín og endaði í Sorpu. Enda er það nú reglan að dót sem er pakkað í geymslu fer á hauganna næst þegar að flutt er svo af hverju ekki að henda því strax?

Ábending til lögreglunnar

Varðandi sprengiefnið sem var stolið þá er ég viss um að þar voru Siglfirðingar að verki og ætla annað hvort að byrja á göngunum eða að sprengja stjórnarráðið!

fimmtudagur, júlí 03, 2003

Meira af aðlögun

Nú er Solla á Leikskólanum og verður þar til hálftólf. Þegar að ég fór með hana í morgun þá var hún ósköp kát og fór til fóstrunar möglulaust. Spurning hvort þessi gleði endist til hálftólf? Ég læt ykkur vita.

miðvikudagur, júlí 02, 2003

Leikskólinn búinn í dag

Solla er komin heim af leikskólanum þar sem hún var foreldralaus í klukkutíma. Þegar að ég kom og sótti hana var hún grátandi en fóstran sagði að hún hefði verið mjög góð allan tíman en væri ný farin að gráta. Ég verð að trúa því! Á morgun er það svo 8.30 til 11.30 eða heilir þrír tímar. Ég veit ekki hvað ég á að gera af mér allan þennan tíma.

Aðlögun á leikskólanum og þýskur forseti

Það hefur verið gaman hjá okkur Sollu á leikskólanum undanfarna tvo daga. Fyrsta daginn skoðuðum við skólann og hittum kennarana og fengum að vita að Solla verður á Putalandi. Annan daginn þá vorum við klukkutíma á leikskólanum og þar af var Solla án pabba í korter og það gekk mjög vel og ég held að hún hafi bara ekkert saknað mín. Svo fór ég með Sollu áðan og hún verður í klukkutíma í dag. Það er spennandi að sjá hvernig hún bregst við því. Svo lengist dvölin með hverjum deginum og á þriðjudaginn verður hún orðin fullgild leikskólastelpa. Annars býst ég við því að sækja hana með fyrra fallinu í sumar þar sem mér finnst átta tíma vistun fulllöng til að byrja með.

Þannig að í næstu viku er komið að því að hella sér í kosningarannsókn 2003 og það verður vitanlega spennandi að sjá niðurstöður hennar.

Við Solla vorum að rölta í bænum í gær, nánar tiltekið á Skólavörðustígnum, og allt í einu eru við farinn að labba inn í hópi af fólki og þar á meðal einhverjar löggur. Þegar að við fórum að athuga málið betur var þetta Jóhannes Rau forseti Þýskalands og fylgdarlið. Við hefðum líklega heilsað upp á hann ef ég væri ekki svona arfaslakur í þýsku og þess vegna létum við okkur bara nægja að kinka til hans kolli. Gaman að því.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?