<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, október 31, 2006

Konur og karlar í Sjálfstæðisflokknum

Ég hef verið að velta fyrir mér konum og Sjálfstæðisflokknum eftir prófkjör helgarinnar. Eins og ég sagði ykkur í síðustu viku þá kjósa karlar Sjálfstæðiflokkinn í mun meira mæli en konur og kannski að niðurstaðan endurspegli að þetta sé karla flokkur. Ef við skoðum þetta nánar þá eru reyndar til upplýsingar í gegnum íslensku kosningarannsóknirnar hversu mikill karlarflokkur Sjálfstæðisflokkurinn er. Kjósendur eru spurðir hvort þeir félagar í stjórnmálaflokki og þá í hvaða flokki. Eins og Óli Þ. hefur bent á eru þær fjöldatölur sem flokkarnir gefa upp langt frá því sem kosningarannsóknir gefa til kynna. Því er augljóst að talsverður fjöldi er skráður í stjórnmálaflokk án þess að vita af því eða vilja það nema hvoru tveggja sé. Ef við skoðum Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík sérstaklega voru rúmlega 16 þús. félagar skráðir í flokkinn eftir prófkjörið 2003. En samkvæmt kosningarannsókn 2003 þá töldu rúmlega 14% (um 12 þús.) Reykvíkingar sig vera í flokknum.

En áhugaverðast er að skoða kynjaskiptinguna. Eins og áður sagði þá segjast um 14% Reykvíkinga á kosningaaldri vera skráðir í Sjálfstæðisflokkinn en þegar að þetta er greint eftir kyni þá kemur í ljós að einungis um 10% reykvískra kvenna segjast vera skráðar í flokkinn en 20% reykvískra karla. Síðan þá hefir líklega fjölgað talsvert í flokknum (skv. flokknum eru félagar 21 þús. núna) en svo sem engin ástæða til að ætla að kynjahlutfallið hafi breyst verulega. Út frá þessu er ekki óvarlegt að áætla að mun fleiri karlar kjósi í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins og greinilegt að þeir veita körlum frekar brautargengi. Hlutföll kynjanna á framboðslistum flokksin endurspeglar þá greinilega kynjahlutföll félaga í Sjálfstæðisflokknum.

Eins og kom fram í rannsókninni sem ég kynnti á föstudaginn eru mun fleiri karlar sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn. En þar kom einnig fram að líklegt sé að þetta hafi ekki alltaf verið svona. Fyrsta íslenska kosningarannsóknin sem gerð var eftir Alþingiskosningar árið 1983 sýnir að svipað hlutfall karlar og kvenna kusu flokkinn. Í þeim kosningum bauð Kvennalistinn fram í fyrsta skiptið og eftir það varð talsverð fjölgun kvenna á Alþingi sem ekki er eingöngu hægt að skýra með þingkonum Kvennalistans. Aðrir flokkar fóru að huga að því að jafna hlut kynjanna á sínum listum. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur að einhverju leyti setið eftir í þessari þróun og ekki gengið sem skildi að jafna hlut kvenna og karla.

Því velti ég fyrir mér orsök og afleiðingu í þessu samhengi. Er staða kvenna í Sjálfstæðiflokknum svona slæm vegna þess að hann hefur mun minna fylgi meðal kvenna eða hefur hann mun minna fylgi meðal kvenna vegna slæmrar stöðu þeirra í flokknum. Svo ég segi eins og annar bloggari: þegar stórt er spurt....
Greinilega verðugt rannsóknarefni hér á ferð.

sunnudagur, október 29, 2006

Jæja þá eru úrslitin í prófkjöri sjálfstæðimanna ljós. Gulli hafði þetta og Björn í fýlu. Björn var reyndar í viðtali hjá RÚV á miðnætti og sagðist geta sætt sig við úrslitin. En við sjáum til! Ég kem til með að sitja spenntur yfir Silfrinu til að heyra hvernig menn spinna þetta. Eins og þetta fór má spinna þetta út og suður. Sitjandi þingmenn falla um sæti en öðrum gengur betur. Tveir nýjir einstaklingar koma sterkir inn en á ólíkum forsendum þó. Fyrir utan Guðlaug þá eru Guðfinna og Illugi sigurvegarar þessa prófkjörs. Illugi er ein bjartasta von sjálfstæðismanna þegar að kemur að hugmyndafræðilegri endurnýjun og hans afrek er að sýna fram á að hægri menn geti haft áhuga á umhverfinu. Guðfinna kemur inn sem flottur pappír en er óskrifað blað í pólitík. Vissulega eru einhverjir sárir eftir kvöldið og sérstaklega sitjandi þingmenn sem biðu lægri hlut fyrir nýliðum. Og vonandi að þeir taki þetta sem skilaboð til sín fremur en að kenna prófkjörinu sem slíku um. En allavega verður spinnið í fyrirrúmi hjá Agli á eftir og ég býð spenntur.

þriðjudagur, október 24, 2006

Annars er ég að spá í skella mér á ráðstefnu Jafnréttisráðs á morgun um konur og stjórnmál og hlusta Óla, Obbu og fleira gott fólk fjalla um jafnrétti kynjanna í stjórnmálum. Verður örugglega athyglisvert. Svo er kynjafræðin að halda upp á 10 ára afmæli sitt á morgun svo þessi vika verður tileinkuð konum og stjórnmálum hjá mér.

mánudagur, október 23, 2006

Þessi síða á greinilega ennþá tvo dygga lesendur sem hafa verið duglegir við að kvarta yfir leti höfundar við að uppfæra hana. Ég vil þakka þessum lesendum trúnaðinn og þolinmæðina en er hættur að lofa bót og betrun enda búinn að svíkja slík loforð of oft.

En það er helst að frétta að ég verð með fyrirlestur á föstudaginn á ráðstefnu sem ber hið mikla heiti Þjóðaspegill 2006. Þetta er reyndar mikil ráðstefna þar sem koma sama fræðimenn úr Félagsvísindadeild, Lagadeild og Viðskipta- og hagfræðideild og halda um 120 erindi um rannsóknir sínar. Ég verð í málstofum um kynjafræði og ætla að velta fyrir mér hvort kosningahegðun kynjanna sé ólík reyndar hvort íslenskar konur kjósi öðruvísi en karlar. Einhverjir kynna að velta fyrir sér af hverju þetta erindi er í málstofu um kynjafræði og af hverju ég skoða fyrst og fremst kosningahegðun kvenna. Skipulagslegar ástæður eru fyrir því að ég er með kynjafræðinni þar sem málstofan í stjórnmálafræði var full. Í erindinu er ég auðvitað að skoða kosningahegðun beggja kynja en einhverra hluta vegna fjallar allur literatúr sem til er um þetta efni út frá því af hverju konur kjósa á ólíkan hátt en karlar.

Í þessari rannsókn nota ég kosningarannsóknir Óla Harðar og er vinna með gögn síðan 1983 og þegar að ég fór að skoða gögnin komst ég reyndar að því að kosningahegðun kvenna hefur reyndar verið mun áhugaverðari en karla. En árið 1983 bíður Kvennalistinn fram í fyrsta skiptið og þó að Kvennalistinn hafi aldrei verið mjög stór flokkur sýnist mér að hann hafi haft meiri áhrif á íslensk stjórnmál en margur kynni að halda. En í stuttu máli má segja að í kosningunum á árið 1983 verða ákveðin þáttaskil en það er í fyrsta skipti sem fjórflokkurinn fær ekki 90% síðan hann varð fullmótaður í byrjun fjórða áratugarins. Eins og við þekkjum hafa orðið miklar breytingar á vinstri væng íslenskra stjórnmála síðan þá. Í raun hafa orðið miklar breytingar í þá vera að sífellt dregur úr flokkshollustu íslenskra kjósenda og algengara er að þeir skipti flokk milli kosninga. Allir flokkar hafa þannig fundið fyrir miklum fylgissveiflum og kosningum er ekkert gefið.

En alla vega þá er megin niðurstaðan sú að talverður munur er á kosningahegðun karla og kvenna þrátt fyrir að hann sé breytilegur milli kosninga. En meira um þetta á Þjóðarspegli 2006.

þriðjudagur, október 03, 2006

Ég er að horfa á umræður um stefnuræðu forsætisráðherra og ekki er hægt að segja að þetta sé fjörugt eða skemmtilegt sjónvarpsefni. Þrátt fyrir að pólitískur áhugi heimili teljist yfir meðallagi þarf ég að horfa á herlegheitin í gegnum netið enda frúin að fylgist með úrslitum í viðskiptasápu Donald Trump. Sumum finnst reyndar kominn tími til að létta þessari ánauð af sjónvarpinu. En ég held að það sé allt í lagi sýna þessar umræður í sjónvarpi, það má alltaf skipta um stöð eða grípa í góða bók ef áhugi er ekki fyrir hendi.

En auðvitað eru tíðindi dagsins að Kjartan Gunnarsson er að hætta og Andri Óttarsson hefur verið ráðinn framkvæmdarstjóri Sjálfstæðisflokksins í hans stað. Geirsarmurinn styrkir enn frekar stöðu sína.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?