<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, október 31, 2006

Konur og karlar í Sjálfstæðisflokknum

Ég hef verið að velta fyrir mér konum og Sjálfstæðisflokknum eftir prófkjör helgarinnar. Eins og ég sagði ykkur í síðustu viku þá kjósa karlar Sjálfstæðiflokkinn í mun meira mæli en konur og kannski að niðurstaðan endurspegli að þetta sé karla flokkur. Ef við skoðum þetta nánar þá eru reyndar til upplýsingar í gegnum íslensku kosningarannsóknirnar hversu mikill karlarflokkur Sjálfstæðisflokkurinn er. Kjósendur eru spurðir hvort þeir félagar í stjórnmálaflokki og þá í hvaða flokki. Eins og Óli Þ. hefur bent á eru þær fjöldatölur sem flokkarnir gefa upp langt frá því sem kosningarannsóknir gefa til kynna. Því er augljóst að talsverður fjöldi er skráður í stjórnmálaflokk án þess að vita af því eða vilja það nema hvoru tveggja sé. Ef við skoðum Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík sérstaklega voru rúmlega 16 þús. félagar skráðir í flokkinn eftir prófkjörið 2003. En samkvæmt kosningarannsókn 2003 þá töldu rúmlega 14% (um 12 þús.) Reykvíkingar sig vera í flokknum.

En áhugaverðast er að skoða kynjaskiptinguna. Eins og áður sagði þá segjast um 14% Reykvíkinga á kosningaaldri vera skráðir í Sjálfstæðisflokkinn en þegar að þetta er greint eftir kyni þá kemur í ljós að einungis um 10% reykvískra kvenna segjast vera skráðar í flokkinn en 20% reykvískra karla. Síðan þá hefir líklega fjölgað talsvert í flokknum (skv. flokknum eru félagar 21 þús. núna) en svo sem engin ástæða til að ætla að kynjahlutfallið hafi breyst verulega. Út frá þessu er ekki óvarlegt að áætla að mun fleiri karlar kjósi í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins og greinilegt að þeir veita körlum frekar brautargengi. Hlutföll kynjanna á framboðslistum flokksin endurspeglar þá greinilega kynjahlutföll félaga í Sjálfstæðisflokknum.

Eins og kom fram í rannsókninni sem ég kynnti á föstudaginn eru mun fleiri karlar sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn. En þar kom einnig fram að líklegt sé að þetta hafi ekki alltaf verið svona. Fyrsta íslenska kosningarannsóknin sem gerð var eftir Alþingiskosningar árið 1983 sýnir að svipað hlutfall karlar og kvenna kusu flokkinn. Í þeim kosningum bauð Kvennalistinn fram í fyrsta skiptið og eftir það varð talsverð fjölgun kvenna á Alþingi sem ekki er eingöngu hægt að skýra með þingkonum Kvennalistans. Aðrir flokkar fóru að huga að því að jafna hlut kynjanna á sínum listum. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur að einhverju leyti setið eftir í þessari þróun og ekki gengið sem skildi að jafna hlut kvenna og karla.

Því velti ég fyrir mér orsök og afleiðingu í þessu samhengi. Er staða kvenna í Sjálfstæðiflokknum svona slæm vegna þess að hann hefur mun minna fylgi meðal kvenna eða hefur hann mun minna fylgi meðal kvenna vegna slæmrar stöðu þeirra í flokknum. Svo ég segi eins og annar bloggari: þegar stórt er spurt....
Greinilega verðugt rannsóknarefni hér á ferð.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?