<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, mars 17, 2004

Helvíti tökum við Einar okkur vel út á dansgólfinu. Aðallega samt ég. En líka Kolla.

þriðjudagur, mars 16, 2004

Niðurstaða heimsóknarinnar til læknisins var nefkirtlataka. Hún mun fara fram á fimmtudaginn í næstu viku.

mánudagur, mars 15, 2004

Hún Sollan mín er að setja smá strik í lærdómsreikninginn. Hún er lasin, búin að vera kvefuð síðan á laugardaginn. Ekkert alvarlegt svosem, smá kvef og nokkrar kommur. En hingað til hefur slíkt smáræði endað í eyrnasýkingum, augnsýkingum, bronkítis og ýmsu þaðan af verra. Ég hélt henni því heima í dag og hún fær ekki að leika sér úti með hinum krökkunum á leikskólanum. Littla greyið. Annars er hún nú búin að vera ósköp góð að dunda sér og er núna að fá sér smá kríu. Við erum svo að fara til læknis á eftir, eigum tíma hjá háls-nef-eyrna-lækni sem ég pantaði fyrir u.þ.b. mánuði síðan. Barnalæknirinn ráðlagði okkur að láta sérfræðing meta hana eftir síðustu hrinu af sýkingum. Sjáum til hvað hann segir.

En ég ætlaði semsagt að byrja að lesa Kvennaréttinn í dag og undirbúa fyrirlesturinn og ritgerðina sem ég þarf að skila í næstu viku. Ætli maður verði ekki bara að harka af sér og slökkva á sjónvarpinu og fara að læra á kvöldin ! Er það hægt ?

fimmtudagur, mars 11, 2004

Laganemar á fjórða og fimmta ári hafa eitthvað verið að villast inn á þessa síðu og nú eru upphafnar miklar spekúlasjónir um hver hinn hægrisinnaði karlkyns laganemi er. Eins og ég sagði í kommentakerfinu hérna fyrir neðan, þá held ég að það sé best að halda nafni hans leyndu, svo hann verði ekki fyrir aðkasti feminískra lagastúdína í Lögbergi :-) Nei, annars. Laganemar eru yfir höfuð hægrisinnaðir og lítið feminískt þenkjandi og gætu því tekið upp hans málstað. Það yrði nú ekki gott fyrir mig. Það er eiginlega betri ástæða til að halda nafninu leyndu. Annars gæti hann farið að safna liði gegn mér !

En talandi um kvennarétt. Þá er ekki nóg með að ég sé nemandi í þeim kúrs, heldur hefur hin títtnefnda B.Flóventz beðið mig um að halda fyrirlestur í næsta tíma. Já, minn kæri hægrisinnaði karlkyns laganemi, ekki nóg með að ég sitji í kvennarétti, heldur er ég farin að kenna kúrsinn !!

(Ehemm, ég ætti kannski ekki að vera með svona miklar yfirlýsingar. Fyrirlesturinn í kvennarétti á nefnilega að snúast um barnarétt. Ég á semsagt að segja frá helstu niðurstöðum kandídatsritgerðarinnar minnar (sem ber titilinn Það sem barninu er fyrir bestu og er að sjálfsögðu tímamótaverk...) og svo ætlar Brynhildur (og ég) að ræða um forsjá og umgengni í kynjatengdu ljósi)

mánudagur, mars 08, 2004

Fín helgi að baki. Við hjónin héldum matarboð á laugardagskvöldið. Eiginmaðurinn sá nú að mestu um þetta. Mitt hlutverk yfir daginn var að hafa ofan af fyrir Sollunni á meðan eiginmaðurinn skúraði, skrúbbaði, verslaði og eldaði. Ekki slæm skipti það. Solla fór svo í næturpössun (sem, næst á eftir visa-rað, er mesta snilld síðari tíma). Eiginmaðurinn eldaði alveg hreint eðalmat. Svo var tekið til við kaffið og grandið. Umræðuefnið snerist að miklu leyti um stöðu kynjanna og forgangsreglu jafnréttislaga (nema hvað). Viðmælandi minn (karlskyns hægrisinnaður laganemi) var mér ekki sammála í ýmsu varðandi það. En ég vann samt debattið, enda með rétta málstaðinn mín megin !

miðvikudagur, mars 03, 2004

Jamm og já. Ætti maður að taka aftur til við bloggið ?

Er kannski alveg týpískt að fara að blogga á fullu þegar álagið í skólanum fer að segja til sín. Var einmitt að ræða þetta við góðar konur í morgun. Þegar maður á að læra og prófskrekkurinn er farinn að segja til sín, finnur maður ástæðu til að gera allt annað. Kallast vinnufælni, eða í okkar tilviki lögfræðifælni. Ég var einmitt í morgun, ásamt góðum konum, að leysa verkefni í Starfsmannarétti. Verkefnið gengur út á það að skrifa álitsgerð vegna vafasamrar starfsveitingar. Við ráðningu í stöðu Veðurstofustjóra var gengið framhjá konu með doktorspróf í veðurfræði og karl með mastersgráðu í viðskiptafræði er ráðinn. Um þetta álitaefni þarf að skrifa 5 - 7 síður. Liggur nokkuð í augum uppi. Engu að síður gátum við legið yfir þessu í fjóra tíma í morgun. En reyndar kom upp þessi vinnufælni í okkur. Ég held að ca. klukkutími hafi farið í að vinna verkefnið. Hinir þrír fóru í að kjafta og slúðra og drekka kaffi. Nokkuð góður árangur það ! Svo ætlaði ég að sjálfsögðu að klára að vinna verkefnið í dag, en gerði ekki. Vinnufælnin sagði til sín aftur. Ég setti frekar í þvottavél.

Og talandi um þvottavélar. Á þessu heimili er ríkir þvotta-jafnrétti. Við setjum bæði í þvottavél. Að auki straujar hver sín föt. Eiginmaðurinn varð því alveg stórlega móðgaður þegar ég fékk sent þvottaefni í pósti en ekki hann. Ég verð nú samt eiginlega að taka undir með Obbu í þessu máli. Kannanir sýna að 92% þeirra sem þvo þvott eru konur. Ég veit nú ekki mikið um markaðsfræði en þessi könnun segir mér að ef þú ert að reyna að markaðssetja þvottaefni þá beinir þú markaðssetningunni að konum. It is as simple as that !!

mánudagur, mars 01, 2004


Pétur var að prófa nýja myndavélasímann sinn. Virðist bara vera helvíti flott græja!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?