<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, janúar 30, 2004

Jæja, maður er mættur heim á klakann aftur. Danmerkurferðin var alveg hreint frábær. Farið út að borða á hverju kvöldi og drukkið ótæpilega af dönskum bjór. Mjög gott allt saman. Kristján varð arkitektúr með miklum sóma. Fékk mjög góða krítík frá dómnefndinni sem mat lokaverkefnið hans. Til hamingju enn og aftur elsku Kristján okkar. Árósar komu verulega á óvart. Ofsalega skemmtilegur bær. Fínir veitingastaðir og pöbbar sem voru óspart heimsóttir. Fórum líka í búðir og versluðum ótæpilega þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað. Við verðum væntanlega að leggjast á hnén um næstu mánaðarmót og biðja kortaklippir um náð og miskun.

Mamma og pabbi stóðu sig eins og hetjur í pössuninni en held að þau séu nú doldið feginn að aftur sé komið ró og næði á Arnarásnum. Solla stóð nefnilega fyrir dálitlum hasar í pössuninni. Varð nokkuð mikið lasin, fékk kinnholubólgur og bronkítis og þurfti læknisheimsóknir, myndatökur og lyfjameðferðir til að ná bata. Afinn og ammann þurftu því að taka sér frí í vinnunni. Ég held að vinnuveitendur þeirra hafi rekið upp stór augu þegar þau tilkynntu að þau þyrftu að vera heima hjá veiku barni, komin á sextugsaldurinn. Solla er þó hin hressasta núna og brosti alveg útað eyrum þegar foreldrarnir birtust skyndilega í gær. Fékk svo að kúra uppí hjá okkur í morgun og gerði óspart aahhh við mömmu og pabba og strauk okkur "blíðlega".

Einar er í vinnunni núna. Já, hann er kominn með vinnu strákurinn. Fékk tilboð um vinnu hjá Félagsvísindastofnun og mun vinna þar í hlutastarfi með skólanum í vetur. Er mjög sáttur við það. Ég þarf að fara að herða mig í skólanum. Er þó búin að kaupa bækurnar en þær eru ennþá í pokanum. Spurning um að rífa þær upp. Næsta fimmtudag þarf ég að halda fyrirlestur um dómskerfið í Rússlandi og þarf því að fara að lesa mér til um það apparat. Ætti að vera athyglisverð lesning.

fimmtudagur, janúar 22, 2004

Ég er ekki alveg að standa mig í þessu bloggi. Í gegnum tíðina, þegar ég hef verið að fara bloggrúntinn, þá hef ég oft og iðulega blótað þeim sem uppfæra ekki síðuna sína a.m.k. annan hvern dag. Nú er komin vika síðan ég bloggaði síðast og rúmlega það. Þetta er nefnilega hægar sagt en gert. Ég hef þegar beðið alla þá afsökunar (í huganum) sem ég hef blótað fyrir stopular uppfærslur...

En hvað skal segja. Ég fór að djamma síðustu helgi. Fór meira að segja að djamma bæði föstudagskvöld og laugardagskvöld, sem hefur eiginlega ekki gerst í manna minnum. Mjög skemmtilegt alveg. Fór í kokkteil á föstudaginn, svo á Vegamót, svo á Felix að horfa á Idol, svo í Röskupartý og svo á trúnó á Sólon. Var komin heim kl. 12:00 alveg sótölvuð eftir skot í boði Kollu og gin og tónik í boði Obbu. Á laugardaginn fór ég í þrítugsafmæli. Afmælisbarnið töfraði fram indverskt hlaðborð og bauð upp á rauðvín og bjór eins og hver gat í sig látið. Merkilegt hvað ég varð ekkert full þrátt fyrir heilmikla drykkju. Það dróst reyndar fram sú minning að "seinna djammkvöld" sömu helgar voru oft hálf-skrýtin. Ekki hægt að ná upp góðu fulli tvo daga í röð.

Næst á dagskrá er svo Danmörk. Já, við hjónin ætlum að leggja land undir fót og fara til Köben og Árósa, hvar Kristján (bróðir Einars) er að útskrifast úr arkitektúr. Verðum í burtu í 5 daga. Ekki laust við aðskilnaðarkvíða, þar sem dóttirin verður hjá pabba og mömmu á meðan. En tilhlökkunin er líka mikil. Ég hef ekki farið til útlanda í, svei mér þá, 3 ár. Ég held að ég hafi farið síðast til útlanda einmitt líka til Köben, á NOM ráðstefnu. Væntanlega haustið 2001. Þá var ég að gæta hagsmuna stúdenta en auk þess fórum við Haukur á reif í sparifötum. Það var MJÖG skemmtilegt. Reikna ekki með að fara á reif í þetta sinn. En stefnan er tekin á Strikið, á veitingastaði og á pöbbana.

miðvikudagur, janúar 14, 2004

Jæja, enn hefur eiginmaðurinn ekki bloggað, ég held því ótrauð áfram...

Stundaskráin mín segir til um frí á þriðjudögum og miðvikudögum. Þeir dagar verða því notaðir til lestrar það sem eftir lifir vetrar. En ekki í dag, og heldur ekki í gær. Ég hef sofið til hádegis tvo daga í röð. Það hefur ekki gert það að verkum að ég sé útsofin og hress. Ég er eiginlega frekar óhress. Er t.d. ennþá á sloppnum þó klukkan sé að verða eitt. Maður kemur ekki miklu í verk þegar maður sefur til hádegis. En aðalástæða þessa svefns er næturbrölt dótturinnar, sem hefur verið mikið. Hún er kvefuð og okkur grunar að hún sé með í eyrunum líka. Þá er ekki mikið sofið. Hún vaknaði um fjögurleytið og þar sem það þýddi ekkert að reyna að svæfa hana aftur var hún tekin uppí. Það endaði með því að hún hrakti föður sinn út úr rúminu um fimmleytið eftir mikið brölt og mikinn grát. Svo sofnaði hún um hálf-sex. Vaknaði aftur rétt fyrir átta með bros á vör. Móðirin var ekki eins kát þegar hún vaknaði við það að sú littla togaði í hárið á henni og sagði í sífellu hæhæ, en gat þó ekki annað en brosað og knúsað littlu Solluna sína. Pabbinn hafði ekkert sofnað aftur og fór því með hana á leikskólann. Svo sváfum við hjónin svefni hinna réttlátu til hádegis. Þetta stendur þó vonandi til bóta. Búið að panta tíma hjá Gylfa barnalækni.

föstudagur, janúar 09, 2004

Ég var að kvarta undan bloggleysi eiginmanns míns, hann brást illur við og sagði mér bara að gera þetta sjálf. Eða nei, hann ákvað að veita mér allranáðarsamlegast leyfi til að skrifa inn á bloggsíðu sína nú í upphafi nýs árs og upplýsti mig um leyniorðið. Hvort heldur sem þið viljið...

Annars er allt ágætt að frétta héðan af Eggertsgötunni. Fjölskyldan hafði það bara alveg ágætt um hátíðarnar. Yngsti meðlimur fjölskyldunnar hafði það þó ekki eins gott því hún var lasin. Byrjaði á því að fá í eyrun á Þorláksmessu og svo ælupest á gamlársdag. Ekki mjög gaman að því. Hún er þó búin að jafna sig og komin á leikskólann og er hæst-ánægð með það. En litli ljúflingurinn er þó búin að uppgvöta að ýmislegt megi ná fram með frekjunni. Já, frekjuköstin eru ófá á degi hverjum, þá er öskrað og grenjað. Yfirleitt gengur það þó yfir á nokkrum mínútum, en veldur þó foreldrunum ómældri armæðu. En inná milli brosir hún og kyssir mann og þá er allt hitt fljótt að gleymast !! En nánar að jólunum og áramótunum. Við höfðum það ansi fínt hjá tengdó á aðfangadagskvöld (kaffi og grand og þetta helsta) og fórum svo í ófá jólaboð eftir það. Um áramótin sameinuðust svo fjölskyldur okkar beggja og Einar og Sólveig (þ.e. Sólveig tengdó, ekki Solla) sáu um matseldina. Borin var fram dýrindis humarsúpa í forrétt og í aðalrétt voru innbakaðar nautalundir og dádýrssteik. Alveg eðall. Strax að áramótum loknum tók svo við afmælisveisla eiginmannsins, hann varð þrítugur á sunnudaginn síðasta. Ég er því gift manni á fertugsaldri og er ekki búin að fullmóta mér skoðun á þeirri staðreynd. Afmælið tókst bara ansi vel, mikið djammað og drukkið og mikið gaman. Ég sendi hérmeð þakkarorð frá eiginmanninum fyrir allar fínu gjafirnar. Það skortir svo sannarlega ekki lesefnið hér á Eggertsgötunni, né heldur rauðvínið til að skola eðalbókmenntunum niður með.

Og talandi um bækur, þá er skólinn byrjaður. Eiginmaðurinn er einmitt núna í prófi. Ég byrjaði í gær, fór þá í tíma í Kvennarétti og Samanburðarlögfræði. Báðir kúrsarnir líta vel út. Kvennaréttur er frábært fag. Þar skoðar maður lögfræðina með kvennapólitískum gleraugum, svo vitnað sé í kennarann. Samanburðarlögfræðin verður ekki síðri. Þar eys prófessor Páll úr viskubrunni sínum um réttarkerfi hinna ýmsu landa. Hann hefur einmitt heimsótt velflest lönd heimsins og skoðað réttarkerfi þeirra með eigin augum. Hann hefur farið til flestra landa S-Ameríku og líka til Kína og Japan, hvar hann lenti í ýmsum ævintýrum sem hann segir okkur óspart frá. Í morgun fór ég í Persónurétt II, en þar er fjallað um persónuupplýsingar, skráningu þeirra og vinnslu. Mjög praktískt og skemmtilegt líka. Á mánudaginn byrja ég svo í Starfsmannarétti, hvar fjallað verður um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna (sbr. lög 70/1996 þar um). Ég var svo að hugsa um að taka einn kúrs í dönsku. Læra að tala og hlusta á skandinavísku. En það gekk ekki alveg upp. Í staðinn ætla ég að taka kúrs sem heitir Constitutional and political theories og er kenndur af Róberti Spanó, þeim merka manni. Veturinn lítur því vel og skemmtilega út.

Jæja, ætli ég láti þetta ekki nægja svona í fyrsta sinn sem maður bloggar. Ég hef nú oftar en ekki fengið að heyra það að ég tali mikið. Ætli ég geti þá núna minnkað talið og fengið útrás á veraldarvefnum ? Hver veit, e.t.v. verður þessi bloggsíða yfirtekin algjörlega. Ég myndi þá breyta titli hennar, ég myndi kalla hana De lege ferenda. Það er nefnilega svo flott að slá um sig með lögfræðifrösum á latínu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?