<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, janúar 09, 2004

Ég var að kvarta undan bloggleysi eiginmanns míns, hann brást illur við og sagði mér bara að gera þetta sjálf. Eða nei, hann ákvað að veita mér allranáðarsamlegast leyfi til að skrifa inn á bloggsíðu sína nú í upphafi nýs árs og upplýsti mig um leyniorðið. Hvort heldur sem þið viljið...

Annars er allt ágætt að frétta héðan af Eggertsgötunni. Fjölskyldan hafði það bara alveg ágætt um hátíðarnar. Yngsti meðlimur fjölskyldunnar hafði það þó ekki eins gott því hún var lasin. Byrjaði á því að fá í eyrun á Þorláksmessu og svo ælupest á gamlársdag. Ekki mjög gaman að því. Hún er þó búin að jafna sig og komin á leikskólann og er hæst-ánægð með það. En litli ljúflingurinn er þó búin að uppgvöta að ýmislegt megi ná fram með frekjunni. Já, frekjuköstin eru ófá á degi hverjum, þá er öskrað og grenjað. Yfirleitt gengur það þó yfir á nokkrum mínútum, en veldur þó foreldrunum ómældri armæðu. En inná milli brosir hún og kyssir mann og þá er allt hitt fljótt að gleymast !! En nánar að jólunum og áramótunum. Við höfðum það ansi fínt hjá tengdó á aðfangadagskvöld (kaffi og grand og þetta helsta) og fórum svo í ófá jólaboð eftir það. Um áramótin sameinuðust svo fjölskyldur okkar beggja og Einar og Sólveig (þ.e. Sólveig tengdó, ekki Solla) sáu um matseldina. Borin var fram dýrindis humarsúpa í forrétt og í aðalrétt voru innbakaðar nautalundir og dádýrssteik. Alveg eðall. Strax að áramótum loknum tók svo við afmælisveisla eiginmannsins, hann varð þrítugur á sunnudaginn síðasta. Ég er því gift manni á fertugsaldri og er ekki búin að fullmóta mér skoðun á þeirri staðreynd. Afmælið tókst bara ansi vel, mikið djammað og drukkið og mikið gaman. Ég sendi hérmeð þakkarorð frá eiginmanninum fyrir allar fínu gjafirnar. Það skortir svo sannarlega ekki lesefnið hér á Eggertsgötunni, né heldur rauðvínið til að skola eðalbókmenntunum niður með.

Og talandi um bækur, þá er skólinn byrjaður. Eiginmaðurinn er einmitt núna í prófi. Ég byrjaði í gær, fór þá í tíma í Kvennarétti og Samanburðarlögfræði. Báðir kúrsarnir líta vel út. Kvennaréttur er frábært fag. Þar skoðar maður lögfræðina með kvennapólitískum gleraugum, svo vitnað sé í kennarann. Samanburðarlögfræðin verður ekki síðri. Þar eys prófessor Páll úr viskubrunni sínum um réttarkerfi hinna ýmsu landa. Hann hefur einmitt heimsótt velflest lönd heimsins og skoðað réttarkerfi þeirra með eigin augum. Hann hefur farið til flestra landa S-Ameríku og líka til Kína og Japan, hvar hann lenti í ýmsum ævintýrum sem hann segir okkur óspart frá. Í morgun fór ég í Persónurétt II, en þar er fjallað um persónuupplýsingar, skráningu þeirra og vinnslu. Mjög praktískt og skemmtilegt líka. Á mánudaginn byrja ég svo í Starfsmannarétti, hvar fjallað verður um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna (sbr. lög 70/1996 þar um). Ég var svo að hugsa um að taka einn kúrs í dönsku. Læra að tala og hlusta á skandinavísku. En það gekk ekki alveg upp. Í staðinn ætla ég að taka kúrs sem heitir Constitutional and political theories og er kenndur af Róberti Spanó, þeim merka manni. Veturinn lítur því vel og skemmtilega út.

Jæja, ætli ég láti þetta ekki nægja svona í fyrsta sinn sem maður bloggar. Ég hef nú oftar en ekki fengið að heyra það að ég tali mikið. Ætli ég geti þá núna minnkað talið og fengið útrás á veraldarvefnum ? Hver veit, e.t.v. verður þessi bloggsíða yfirtekin algjörlega. Ég myndi þá breyta titli hennar, ég myndi kalla hana De lege ferenda. Það er nefnilega svo flott að slá um sig með lögfræðifrösum á latínu.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?