<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júní 30, 2003

Leikskóli

Við Solla erum að fara á leikskólann í fyrsta skiptið í dag enda varð hún 9 mánaða í gær. Ég fæ að vera með á leikskólanum fyrstu vikuna. Það verður örugglega gaman og ég leyfi ykkur að fylgjast með. Svo eru komnar nýjar myndir á síðuna hennar Sollu. Kíkið á það!

miðvikudagur, júní 25, 2003

Brúðkaupsafmæli

Ég er búinn að vera netlaus í næstum tvær vikur og þó að það sé í fínu lagi í þegar að maður er upp í bústað þá er það verra hérna heima. Þannig var að netkortið í fartölvunni gaf sig eða réttara sagt einhver snúra sem liggur úr því. Í einfeldni minni hélt ég að það væri lítið mál að kaupa nýja snúru en svo er ekki. Snúran er hluti af netkortinu og því virðist vera sem ég þurfi að kaupa nýtt kort. Þar sem það kostar einhver ósköp fór ég frekar í það mál að standsetja nýju tölvuna og það er loksins komið með hjálp frá Ragnari mági mínum. Þannig að tölvumál heimilisins ættu að vera í ágætu standi.

En svo ég skauti yfir það helsta sem hefur gerst í lífi heimilisfólksins undanfarið er það helst að nefna að við hjónin héldum upp á tveggja ára brúðkaupsafmæli okkar 16. júní á Þingvöllum. Það var auðvitað vel við hæfi þar sem við hæfi þar sem við giftum okkur þar og reyndar trúlofuðum. Talandi um brúðkaupsafmæli þá vil ég óska Ernu og Mödda til hamingju með brúðkaupsafmælið þeirra en þau giftu sig sex dögum eftir okkur.

Þyrí er komin á fullt hjá Umboðsmanni barna þar sem hún tekur þátt í því að gera líf barnanna okkar betra og líkar vel. Af Sollu er það frétta að hún er búin að læra öll þessi helstu trix eins og hvað hún er stór, klappa vinka og svo framvegis. Svo fer nú að styttast í fyrsta orðið. Hún segir reynda mamamama og haba ne ég er ekki alveg viss um að hún viti hvað þau þýða. En hún segir líka nammnamm og veit upp á hár hvað það þýðir – annað hvort að hún sé að borða e-ð gott eða vilji e-ð gott. Annars byrjar hún í leikskólanum í næstu viku og það á eftir að verða erfitt og ekki síst fyrir okkur foreldrana. En ætli við höfum ekki öll gott af því! Svo getur verið að þetta verði ekkert mál. Solla fór í næturpössun í fyrsta skipti um daginn og fór létt með það. Tengdó riðu á vaðið og leystu það af mikilli snilld og ég er ekki frá því að Solla hafi ekki viljað fara með okkur heim aftur enda foreldrarnir þynnkulegir eftir einar þrjár útskriftarveislur kvöldið áður.

Annars er Bristol Binni á landinu og þrátt fyrir stífa dagskrá hjá kallinum er ég að vonast til að ná honum og Maju í mat á föstudaginn. Gaman af því eins Binni myndi eflaust segja!

föstudagur, júní 06, 2003

Nýtt DV

Ég hef aðeins kíkt á nýtt DV og verð að segja að breytingarnar eru nokkuð góðar. Blaðið er mun að aðgengilegra þó ég haf ekki kynnt mér hvort efnistök hafi breyst en sjálfsagt hafa þau gert það. Spurning hvort DV ætli að detta endanlega í götublaðastílinn að breskri fyrirmynd. Ný heimasíða DV er alla vega sláandi lík heimasíðu The Sun.

Nú Persónuvernd búinn að staðfesta að aðgerðir ríkistjórnarinnar hafi verið brot á lögum um persónuvernd. Ég vona að menn þar á bæ skammist sín og hafi vit á því að biðjast afsökunar. Þó efast ég reyndar stórlega um að hún geri það og væri jafnvel vís með að endurtaka leikinn ef það þarf að taka á móti fleiri bófum.

Annars nenni ég lítið að svekkja mig yfir ríkistjórninni þessa dagana enda gott veður og við Solla erum búin að sitja á svölunum í morgun og sóla okkur. Ég ætla þó að reyna að vinna einhver heimilstörf það sem eftir er dagsins svo ég standi undir nafni sem heimavinnandi húsfaðir. Spurning hvort maður reyni svo ekki að komast í bjór og grill í kvöld. Einhverjar hugmyndir.

MA nám og ný tölva

Við Solla fórum út í Háskóla í gær og gengum frá skráningu í MA-námið. Það hittum við Hauk en hann er að fara í MPA námið og við verðum saman í einhverjum kúrsum næsta vetur. Gaman að því! Fínt að hafa félaga í þessu til að bera saman bækur við ef ekki hreinlega að skiptast á bókum við. Mér líst ótrúlega vel á þetta nám og hlakka til að byrja í skólanum. Kúrsinn sem ég tók núna á vormisseri var fín upphitun og ég komst að því að ég er ekki alveg búinn að gleyma því hvernig á að vera í skóla (fékk 9 J).

Annar er brjálað að gera hjá okkur Sollu þessa dagana. Í gær fórum við upp í LÍN til að athuga hvort ég fái einhver lán næsta vetur. Það er nokkuð sem ættir að vera hægt að gera á heimasíðu en svo er víst ekki. Jú ég fæ nú eitthvað lán en það munar kannski mestu um að ég hætti að greiða það sem skulda fyrir. Annars var þetta allt frekar loðið enda enginn þjónustu fulltrúi við en stúlkan í afgreiðslunni gerði þó sitt besta til að svara mér. Svo fórum við með bílinn á dekkjaverkstæði til að setja sumardekkin undir (vona að löggan sé ekki að lesa). Þurfti að kaupa 3 ný dekk og svo hafa bremsurnar verið slappar og áður en ég vissi af þá þurfti ég að punga út 40.000 kall. Einhvern veginn finnst mér svona útgjöld alltaf blóðug og að maður geti alveg eins kastað peningunum í sjóinn. Ég verð þó að viðurkenna að það er mun betra að keyra bílinn og það þykir alltaf kostur að hafa bremsurnar í lagi. Svo var ég að kaupa tölvu í fyrradag veitir ekki af að haf tvær vélar á heimilinu þegar að við verður bæði komin í nám. Keypti notaða vél með 19” skjá hjá Reiknistofnun á 35.000. Gerði ágæt kaup þar og nú ætti maður að geta bloggað.

miðvikudagur, júní 04, 2003

Gott sumarfrí og aðrar fréttir!

Jæja, þá sumarfríinu lokið og bloggið að detta í gang aftur. Litla fjölskyldan hefur eitt síðustu tveimur vikum á Þingvöllum og fjarri internetinu. Þetta var frábær tími enda vorum við heppin með veður miðað við maí og ég er ekki frá því að ég hafi tekið smá lit. Svo var auðvitað grill og rauðvín á hverju kvöldi og alger slökun. Ég las fullt af bókum og allt einhverjir reyfarar og ekkert til að bæta á bókasíðuna mína.

Marý var í heimsókn um daginn og eyddi með okkur tveimur dögum í bústaðnum. Það er allt gott að frétta af henni og lífinu í Norwich. Hún ætlar að vera amk ár í viðbót og er búin að leigja Innlit/Útlit íbúðina sína í þann tíma.

Síðasta færsla var um nýfædda dóttur Marenar. Hún er komin með nafn, Ragnheiður Anna Ragnarsdóttir, og braggast vel. Við systkinin verðum bæði heima í sumar í barnauppeldi og eigum örugglega eftir að vera mikið á rölti um miðbæinn með barnavagnana. Ætlum við bætum ekki Birnu í þann hóp með Agnar Daða.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?