<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, október 17, 2003

Stjórnun, sjónvarpið og fjárlagagerð!

Eyddi vikunni í að gera verkefni í Opinberri stjórnsýslu um gagnsemi líkinga til skilja stofnanir. Verkefni fólst í því að máta nokkrar líkingar á stofnum sem ég þekki vel. Vandinn var sá að það er varla hægt að segja að ég hafi unnið hjá opinberra stofnun svo þetta var nokkuð snúið. Félagsvísindadeild varð fyrir valinu enda hef ég verið nemandi þar lengur en ég kæri mig um að muna og hef meiri segja verið titlaður stundakennari við deildina. Gallinn við þetta val er að kennarinn sem fer yfir verkefnið þekkir deildina mun betur en ég og spottar það strax þegar að ég byrja bulla. Annars ganga þessi stjórnunarfræði alltof langt í að notast við líkingar. Öll þessi frægu stjórnunargúru hamast við upphugsa einhverjar sniðugar líkingar og ég hef á tilfinningunni að líkingin sé markmið frekar en verkfæri til að skilja fræðin. Svo ég haldi áfram að vera í kasti yfir stjórnunarfræðum þá set ég spurningarmerki við það hvort þetta séu einhver fræði. Virtir „fræðimenn“ í stjórnun virðast komast upp með það að setja fram alls konar kenningar og hugmyndir án þess að það liggi fyrir rannsóknir sem styðja ágæti þeirra. Tala nú ekki um ef þeir koma með sniðuga líkingu með trúi fólk þessu eins og nýju neti og bækurnar þeirra seljast í milljónum eintaka. En alla vega er einu súrasta verkefni sem ég hef unnið í HÍ lokið en býst samt ekki við að fá nein verðlaun enda endaði ég ritgerðina á því að lýsa frati í þessa líkingaáráttu stjórnunarfræðanna.

Sjónvarpið tók viðtal við mig í gær um efni ritgerðarinnar. Ég vona að ég hafi hikstað einhverju gáfulegu upp úr mér, efast þó um það. Tökumaðurinn lagði svo mikla áherslu á að ég stæði á einhverju ímynduðu X-i að ég var að uppteknari af því en því sem ég sagði. Ef viðtalið kemur illa út get ég huggað mig það að ritgerðin er góð (fékk níu).

Helgarplanið er að lesa bókina Úr digrum sjóði sem er bók eftir Gunnar Helga um fjárlagagerð á Íslandi. Þó efnið hljómi ekki spennandi er ég reyndar viss um að bókin er athyglisverð lesning enda mæla þeir sem hafa lesið með henni. Læt ykkur vita! Kannski að ég skrifi um hana á síðuna Á náttborðinu enda ansi langt síðan að nokkuð birtist þar.

Góða helgi.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?