<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Kynjahlutfall á Alþingi

Á póstlista Femínistafélagsins er verið að spá í hvaða áhrif gengin prófkjör hefðu á kynjahlutfallið á Alþingi eftir næstu kosningar. Þar sem frekar fáir listar eru komnir fram er frekar erfitt að reikna slíkt út og einnig er spurning um hvaða forsendur maður gefur sér. Þó kynjahlutfallið er reiknað út frá ákveðnum forsendum verður það samt aldrei annað en leikur að tölum en þar sem ég hef gaman af slíkum leikjum lét ég vaða.

Þeir listar sem þegar eru komnir fram annað hvort með prófkjörum eða kjördæmaþingi er listi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, listi Samfylkingar og Framsóknar í Kraganum og listar Samfylkingar í Norðvestur-, Norðaustur og Suðurkjördæmum.

Þessir listar fengu 22 þingmenn kjörna eftir síðustu kosningar og þar af sjö konur (32%). Nú sitja reyndar átta konur á þingi (36%) fyrir listana eftir að Ásta Möller kom inn fyrir Davíð Oddsson. Ef þessir listar fá sama fjölda þingmanna eftir næstu kosningar verða konurnar sex (27%). Breytingin sem verður er að enginn kona kemst inn hjá Samfylkingunni í NV, en þar er ein kona nú, og þingkonur Samfylkingar í Kraganum verða tvær en eru þrjár nú. Þingkonur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verða tvær í staðinn fyrir ein eins og eftir síðustu kosningar. En eins og áður sagði eru þær reyndar orðnar tvær nú.

En til að flækja málið meira og gera útreikningana enn óábyrgari skoðaði ég þetta einnig út frá nýjustu könnun Gallup.

Ef bara er horft til þeirra lista sem komnir eru fram og skoðaðir voru hér að ofan verða konurnar sex af 21 þingmanni (29%) sem þessir listar fá samkvæmt könnuninni. Breytingin fá síðustu kosningum er að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík fær fjórar þingkonur í staðinn fyrir eina síðast, en þingkonum Samfylkingar fækkar um þrjár (kraganum, Suður og NV) og Siv kemst ekki inn í Kraganum.

En eins og áður sagði þá eru margir listar óskipaðir því ómögulegt að spá fyrir um hlutfall kvenna á þingi eftir næstu kosningar enda vantar stærstu breytuna inn í dæmi sem eru kosningaúrslitin. Sem dæmi má nefna að ef fyrrnefnd könnun Gallup gengi eftir fjölgar þingmönnun Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs um átta. Þar sem VG er með fléttulista ætti þingkonum flokksins að fjölga úr tveimur í sex til sjö. En á móti kemur að skv. könnuninni þá ná Framsóknarkonurnar Siv og Jónína Bjartmarz ekki inn á þing og líkur til að þingkonum flokksins í NV fækki úr tveimur í eina. Skv. könnuninni tapar Samfylkingin þingmönnum og líklegt að þar verði einhverjar konur þó að kynjahlutfallið í þingflokknum geti haldist óbreytt. Eins og áður hefur komið fram getur þingkonum í Sjálfstæðisflokksins fjölgað ef hann nær því fylgi sem könnunin spáir.

En þetta bara leikur að tölum og enn eru alltof margir óvissuþættir til að hægt sé að taka þetta of alvarlega. En það er um að gera að halda áfram að skoða þetta eftir því sem framboðslistum fjölgar.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?