<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, apríl 30, 2004

Jæja, biturleikinn fór með mann langt í gær. Massaði prófið í kvennarétti. Ekki hægt að segja annað.

Ég er því búin að snúa mér að Samanburðarlögfræði sem er næsta próf á dagskrá (á þriðjudaginn). Prófessor Páll sem kennir þann kúrs er skemmtilegur maður. Tímarnir hjá honum fóru eiginlega minnst í að tala um lögfræði og meira í að ræða mannkynssöguna, menningu hinna ýmsu ríkja og síðast en ekki síst ferðasögur Páls, sem ferðast hefur til flestra landa heims og kynnt sér lagaumhverfi og réttarkerfi ólíklegustu ríkja. Svo kemst hann oft skemmtilega að orði. Þegar maður er með tölvu í tíma hjá honum (og með glósuáráttu) kemst maður oft ekki hjá því að skrifa niður eftir honum orðrétt. Í alveg hreint mögnuðum tíma um svissneskan rétt hef ég skrifað eftirfarandi :

Sviss er mjög lítið land, mun minna en Ísland. Er samt sambandsríki. Er með kantónur, sem eru með ríka heimastjórn. Páll tekur til við að sýna skemmtilegar myndir af fjallaþorpum í Sviss. Segir svo frá því að Sviss sé karlremburíki, konur fengu ekki kosningarétt fyrr en seint og síðarmeir. Svo eru þjóðaratkvæðagreiðslur mjög algengar, allur fjandinn borinn undir þjóðina og aldrei fengu konur að kjósa. Er samt mikið menningarríki, standa framarlega tæknilega, er efnuð þjóð og menntuð, margir háskólar.

Jamm

fimmtudagur, apríl 29, 2004

Jamm og já. Prófin halda áfram, two down and three to go. Gekk nokkuð vel á þriðjudaginn hjá Spanó. Nú er kominn fimmtudagur og próf í kvennarétti í dag. Þar sem um munnlegt próf er að ræða og ég er aftast í stafrófinu er ég ekki fyrr en ca. hálf-fimm í dag. Annars er ég orðin svo bitur feministi að ég hlýt að taka þetta kvennaréttarpróf nokkuð létt...

mánudagur, apríl 26, 2004

Nú er ég búin að lesa yfir allt efnið fyrir prófið á morgun og svara þeim 6 spurningum sem Spanó dreifði til okkar (af þeim munu 4 koma á prófinu).

Spurningin er því :
- á ég að lesa svörin við spurningunum yfir og reyna að leggja þetta betur á minnið ?
eða
- á ég að fara heim og horfa á Survivor ?

Afmælishelgin að baki. Þakka kærlega góðar kveðjur. Til að allrar sanngirnis sé nú gætt skal það tekið fram að eiginmaðurinn fór nú fram úr rúminu og fór með Sollu í bæinn hvar þau keyptu handa mér blóm og afmælisgjöf. Svo eldaði hann eðalmat fyrir mig um kvöldið, grillaðar svínalundir - nammnamm. Allt í allt var þetta bara ágætisdagur, þrátt fyrir að vera inni í miðri próftörn.

Talandi um próf, næsta er í fyrramálið - best að fara að læra...

laugardagur, apríl 24, 2004

Jæja, þá er prófið í Persónurétti afstaðið. Gekk bara þokkalega. Var nú dáldið snúið próf og langt. Eiginlega hálfgerð skrif-keppni. Skrifaði stanslaust í þrjá tíma og korter, auka örk og læti - og náði nú eiginlega ekki alveg að klára síðustu spurninguna og alls ekki að lesa neitt yfir. Vonum bara það besta. Næsta próf á þriðjudaginn. Líka skriflegt. Topics in political and constitutional theory. Sem var mjög skemmtilegt fag og maður ætti nú að geta setið yfir því næstu þrjá daga án þess að deyja úr leiðindum...

Annars á ég afmæli í dag. Er 28 ára. Eiginmaðurinn er steinsofandi inni í rúmi eftir að hafa fagnað próflokum sínum í gærkvöldi. Það hefur því engin óskað mér til hamingju. Nema Sollan mín, sem gerði óspart aaahhh við mömmu klukkan hálf átta í morgun þegar hún vildi fara að komast á fætur... :-) Ég hugsa að við Solla skreppum bara í sund af tilefni dagsins.

fimmtudagur, apríl 22, 2004

Gleðilegt sumar kæru lesendur nær og fjær. Ansi er það nú upplífgandi þegar sumarið heilsar með eðalblíðu. Ekki það að ég sé að njóta blíðunnar sitjandi í Lögbergi að lesa Persónurétt. Próf á morgun og því ekki hægt að fara í bæinn og sitja á útikaffihúsi og drekka einn kaldan. Ooohhh.

Ég hugga mig við það að þetta er síðasta próftörnin mín hér í Lögbergi og framvegis get ég væntanlega notið þeirra frídaga sem tilkoma á vorin. Hafa hingað til algerlega farið framhjá mér sökum próflesturs. Annars verð ég nú að gratúlera Svönu fyrir nýju vinnuna. Eftir því sem ég kemst næst er hún sú eina í útskriftarhópnum sem er komin með vinnu. Ég er semsagt ekki komin með vinnu. Ýmsar þreifingar í gangi samt sem ekki er hægt að segja frá að svo stöddu á veraldarvefnum. Sjáum til hvað gerist á næstu vikum...

Annars er ég búin að vera að lesa mér til um beina markaðssetningu í gærkvöldi og í morgun. Nokkuð athyglisverð lesning. T.d. kemur fram að skv. verklagsreglum Hagstofunnar er bannað að leyfa úrtak úr þjóðskrá byggt á forsjármönnum nýfæddra barna, þ.e. barna yngri en 6 mánaða. Ég get nú ekki séð að eftir þessu sé farið. Ég man ljóslega eftir bleiukynningum, kynningu á barnastarfi Kirkjunnar (mömmumorgnum), einhverjum bankatilboðum og ýmsu fleiri sem datt inn um lúguna hjá okkur þegar Solla var nýfædd.

þriðjudagur, apríl 20, 2004

ohhh. OBBA ! Ég hef ekki komist inn á síðuna þína í marga daga. Er þetta eitthvað persónulegt ???

mánudagur, apríl 19, 2004

Enn og aftur er maður í Lögbergi. Reyndar var lítið lært um helgina sökum heilsuleysis dótturinnar. Ömmurnar og afarnir hafa víst eigið líf og gátu því ekki passað og eiginmaðurinn fékk forgang í lesturinn sökum heimaprófs. Við Solla vorum því bara heilmikið að dunda okkur og horfa á Stubbana og svoleiðis. Svosem ekki slæm hlutskipti en prófið á föstudaginn nálgast eins og óð fluga og því þarf maður að halda sér við efnið.

Prófið er í kúrsi sem heitir Persónuréttur II - persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Er bara nokkuð skemmtilegur en helv.. snúinn. Prófið er skriflegt þriggja tíma gagnapróf með raunhæfum verkefnum. Jamm. Mér hefur nú fundist það að mega taka öll gögn með sér í próf vera bjarnargreiði. Prófin eru erfiðari og maður verður bara ringlaður og stressaður að fletta sífellt fram og til baka í glósunum án þess að það gagnist manni nokkuð. Þá vil ég nú frekar troða öllu draslinu í skammtímaminnið og treysta á guð og lukkuna.

Í upphafi gagnaprófs má líka búast við slagsmálum við yfirsetufólkið, sem virðist aldrei geta verið með á hreinu hvað menn mega hafa með sér. Í venjulegum prófum í Lagadeild má hafa Lagasafnið (skv. reglugerð Lagadeildar). Samt virðist yfirsetufólkið alltaf sjá sig knúið til að tilkynna að ekki megi hafa nein gögn og þar með talið þetta Lagasafn en gefur sig venjulega eftir hávær mótmæli laganema. Hvernig verður það nú eiginlega þegar maður mætir með glósumöppuna og bókina auk Lagasafnsins ?

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Jamm og já - þá er maður kominn aftur í streðið í Lögbergi. Helv... fínt að fara svona til útlanda fyrst, maður er bara endurnærður. Ferðin var í alla staði góð. UK stóð vel undir væntingum, ekki síst Norwich sem kom á óvart sem skemmtilegasti bær. Eða réttara sagt borg. Er ekki ósvipuð Árósum, stórborg en samt bær.

Gaman að vera svona með fjölskyldunni bara að dúlla sér, labba í bænum og leita uppi leikvelli fyrir Sollu og svoleiðis. Já og versla. Ekki gleyma því. Visa kortið var straujað ótæpilega. Maður verður náttla að endurnýja fataskápinn fyrst maður er að færast úr því að vera laganemi yfir í að vera lögfræðingur nú á allra næstu vikum. Nýtt lúkk fylgir með, þó ekki ókeypis (sbr. upphæð næsta visa-reiknings). Keypti samt ekki gálulegt leðurpils eins og aðrir hafa gert í sínum útlandaferðum. Er í heldur hófsamara lúkki - dragtir og svoleiðis. Keypti meira að segja útskriftardressið. Karen Millen var það heillin - í boði Marý, sem splæsti í veglega útskriftargjöf handa systur sinni. Annars þrástagaðist eiginmaðurinn á því að ég hefði nú eiginlega fyrst átt að finna mér vinnu áður en ég færi að kaupa mér föt til þess að nota í vinnunni. Ég lét það sem vind um eyru þjóta.

mánudagur, apríl 05, 2004

Fór á svaka fínt djamm á föstudaginn. Myndir má sjá hér (í boði Særúnar). Gleymdi reyndar að fá leyfi fyrir þessum link hjá henni, treysti því að þetta sé í lagi. Djammið var rosa fínt. Vel var veitt í kokkteilnum og svo var farið á Sólon, Ölstofuna og Vínbarinn. Langt síðan maður hefur tekið svona bæjardjamm. Rosa fínt. Fékk reyndar rauðvín í fínu DKNY buxurnar en því var reddað af Ásu og sódavatni.

Svo er bara UK á miðvikudag - nánar um það síðar...

laugardagur, apríl 03, 2004

Hjónablogg

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir hefur nafni síðunnar verið breytt í Hjónablogg. Það á vel við þar sem ég er ekki lengur heimavinnandi húsfaðir og betri helmingurinn hefur algerlega yfirtekið síðuna og hefur breytt henni í femenískt áróðursrit. Nú hefur hún fært sig upp á skaftið og ruðst inn á Selluna til að breiða út fagnaðarerindið.

En í framhaldi af umræðum um ævisögur þá er ég að lesa hið umdeilda rit Halldór eftir Hannes Hólstein. Ég verð að segja að bókin fer afskaplega hægt af stað og mér þykir Hólmsteinn dvelja full lengi við æsku skáldsins. Sérstaklega í ljósi þess að frásagnir af henni virðast vera byggðar nær eingöngu á bókum Laxness og Hannes því að bæta litlu við. Samkvæmt Helgu Kress er Hannes reyndar ekki bæta neinu við bækur sem eru þegar komnar út, ekki einu sinni eigin stíl! En ég læt ykkur vita hvernig bókin þróast.

Svo er Solla búin að uppfæra síðuna sína bæði með myndum og pistli.

P.s. Skrýtið hvernig bloggþörf (sem ég hef alveg verið laus við undanfarna mánuði) hellist yfir þegar maður á að vera leysa heimspróf.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?