<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, nóvember 30, 2003

Sjá Hauk!

miðvikudagur, nóvember 26, 2003

Kristján bróðir er í mikilli reisu til að undirbúa lokaverkefnið sitt. Hann byrjaði á að heimsækja Binna í London, skellti sér svo til Mödda og Ernu í New York og ætlar að enda í Amsterdam. spurning hvort hann rekist á Hjört þar. Ég vildi að ég hefði þurft að gera svona víðreist út af mínu verkefni. Hefði kannski átt að skella mér í kosningaeftirlit í Georgíu með Dagný.

Nú eru að hellast yfir próf og þessa stundina er ég einmitt í heimaprófi í Rannsóknaaðferðum en það er mun skemmtilegra að blogga enda eru þessi heimspróf afleit uppfinning. Mun betra að fara í próf og klára það á þremur tímum í stað þess að hafa þetta hangandi yfir sér heilu dagana. Næstu tvær vikur verða frekar strembnar, eitt hagfræðiverkefni og tvö próf. Leikskólinn hennar Sollu ætlaði að koma á móts við foreldra í prófum og hafa opið á laugardögum í desember en svo virðist ekki vera nein stemning fyrir því. Spurning hvort allir eru búnir að vera svona duglegir að lesa í vetur að þeir þurfa ekki að nota helgarnar. Hver veit?

fimmtudagur, nóvember 20, 2003

Er í tíma í Opinberri stjórnsýslu þar Gunnar Helgi er að fjalla um nýskipan í ríkisrekstri. Bara nokkuð áhugavert. Tjaldurinn er ekki mættur sefur væntanlega með höfuð undir væng.
Annars var Binni að útskrifast um daginn og er orðinn Master kallinn. Til hamingju með það. Fulltrúi minn er á leið til Bretlands til fagna þessum tímamótum með honum. Þau fagnaðarlæti ná svo hámarki þegar að við Þyrí mætum á svæðið um páskana. Gaman af því!

þriðjudagur, nóvember 18, 2003

Skjárinn á tölvunni gaf sig um daginn svo það verður lítið bloggað á næstunni. Þar sem ég keypti skjáinn af RHÍ sendi ég fyrirspurn til þangað en venja er að það taki stofnunina eina til tvær vikur að svara skeytum svo líklegt er að skjáleysi komi til með að hrjá mig um stund. Nema það sé einhver þarna úti sem á auka skjá sem hann getur lánað mér í einhverjar vikur.

Annars er ótrúlegt hvað maður verður háður þessum tölvum og sérstaklega netinu og nú þegar að ég get ekki kíkt á netið eða póstinn tíu sinnum á dag er maður einhver veginn úr sambandi við allt og alla.

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Sellan er vöknuð aftur til lífsins eftir nokkurt hlé og ég er með grein dagsins. Hvet ykkur til að kíkja á hana.

mánudagur, nóvember 10, 2003

Nú hafa tveir formenn stjórnmálaflokka notað upplýsingar úr ritgerðinni minni í setningaræðum sínum á landsfundum sinna flokka. Hvorugur hefur þó lesið ritgerðina né séð sóma sinn í því að láta sinn flokk kaupa hana heldur hafa sínar upplýsingar frá þriðja aðila. Össur sagði í sinni ræðu að í síðustu kosningum hefði Samfylkingin notið mesta fylgis hjá nýjum kjósendum sem var rétt hjá honum. En mér fannst Steingrímur vera með nokkuð bjartsýna túlkun ef hann telur Vg geta fengið um fjórðungs fylgi í næstu kosningum og byggir það á mesta mögulega fylgi flokksins samkvæmt ritgerðinni. Mesta mögulega fylgi er reiknað þannig að lagt er saman fylgi flokksins og hlutfall þeirra sem hugleiddu að kjósa flokkinn en gerðu ekki. Þannig var mesta mögulega fylgi flokksins í síðustu kosningum 22%. Mesta mögulega fylgi Samfylkingarinnar var t.d. 45%. Afar litlar líkur eru á að þessir flokkar nái slíku fylgi. Það er alla vega ljóst að ef annar flokkurinn kemst einhver tíman nærri þessu þá verður það á kostnað hins. Annars er nokkuð til í því þegar að Steingrímur boðar vinstra vor því kjósendur sem skilgreina sig vinstra megin við miðju hefur verið að fjölga á undanförnum árum eða um 7% síðan 1995.

En Steingrímur og Össur, ritgerðin er til sölu og ég er alltaf til í létt spjall um niðurstöður kosningarannsókna.

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Ég verð greinilega að fara að taka mig á í blogginu því Marý var að benda mér á að að hinn ágæti miðill FRÉTTIR sé með link á síðuna mína. Hún er reyndar með tengingu undir nafninu Einar Már og ég verð nú alltaf pirraður yfir slíku rugli en ætli það sé ekki fyrirgefið í þetta sinn.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?